Herdís Gunnarsdóttir, settur forstjóri Reykjalundar, segir mikilvægt að starfsemi stofnunarinnar fái að ganga sinn gang. Herdís var ráðin í sumar sem framkvæmdastjóri endurhæfingar, en tók að sér stöðu forstjóra tímabundið eftir að fyrrverandi forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga var sagt upp í kringum síðustu mánaðamót. Málið hefur þótt gríðarlega umdeilt og hafa þrír læknar sagt upp starfi sínu á Reykjalundi.
Herdís segist vera sannfærð um að starfsemin á Reykjalundi eigi sér bjarta framtíð. Mikilvægt sé að þjónusta við sjúklinga skerðist ekki.
„Verkefnin fram undan hér á Reykjalundi leggjast vel í mig og ég er sannfærð um að starfsemin hér á sér bjarta framtíð. Í mínum huga hefur Reykjalundur sérstöðu í íslenska heilbrigðiskerfinu, bæði sem vinnustaður og um leið stærsta endurhæfingarstofnun landsins. Stefna og sýn Reykjalundar hefur verið skýr um það markmið að veita alhliða og þverfaglega endurhæfingu til að auka lífsgæði og færni sjúklinga. Til að tryggja að slík markmið náist hefur Reykjalundur haft á að skipa hæfu fagfólki, með fjölbreytta menntun, starfsreynslu og sérhæfingu, sem vinnur með þarfir sjúklinga að leiðarljósi,“ segir Herdís í samtali við mbl.is.
„Því verður hins vegar ekki mótmælt að sú staða sem kom upp er bæði erfið og óheppileg.Við höfum nú þegar hafist handa í þeirri viðleitni að koma málum hér í eðlilegt horf og við munum halda því ótrauð áfram. Þjónusta við sjúklinga á Reykjalundi er óskert enda er brýnt að tryggja þjónustu við sjúklinga og að sú þjónustaverði samfelld. Allir starfsmenn þurfa að taka höndum saman til að tryggja að svo verði. Stjórnendur Reykjalundar munu jafnframt leggja sig sérstaklega fram um að viðhafa samráð við starfsfólk með það að markmiði að tryggja þjónustu og góðan starfsanda. Allt þetta mun taka tíma en með samstilltu átaki mun það takast. Það er áríðandi að tryggja vinnufrið og þar er hver og einn starfsmaður á Reykjalundi ábyrgur fyrir eigin framgöngu og framlagi við að skapa frið,“ segir Herdís.
Uppsagnir forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga ollu mikilli reiði á meðal starfsmanna Reykjalundar. Um 100 starfsmenn Reykjalundar lýstu yfir vantrausti á hendur stjórnar SÍBS og sérstaklega hefur formaður læknaráðs Reykjalundar, Magdalena Ásgeirsdóttir farið hörðum orðum um stjórn SÍBS í fjölmiðlum. Magdalena var gestur Jóhönnu Vigdísar í Kastljósi fyrr í vikunni og sagðist hún þá ætla að segja upp störfum sínum á Reykjalundi.
Herdís segir stöðuna á Reykjalundi vera sorglega, en að mikilvægt sé að horfa fram á veginn og tryggja öryggi sjúklinga.
„Við erum öll harmi slegin og upplifum ýmsar tilfinningar í tengslum við atburðarás síðustu tveggja vikna. Nú blasir við okkur það verkefni að byggja okkur upp að nýju og á sama tíma að horfa fram á veginn. Ég er þakklát þeim starfsmönnum sem hafa sett hagsmuni sjúklinga og fagleg vinnubrögð í forgrunn. Það hefur mikil meirihluti fagfólks gert nú þegar hér á Reykjalundi,“ segir Herdís.
„Tímabundin skerðing átti sér stað á þjónustunni í einn dag síðastliðna viku en síðan þá er starfsemin að fullu tryggð. Lykilatriði í líðan starfsmanna er að finni sig örugga í sínu starfsumhverfi. Lykillinn fyrir öryggiskennd starfsmanna er að eyða allri óvissu sem fyrst og þar er gott upplýsingaflæði mikilvægt. Ég ætla að upplýsa alla jafnt og þétt um næstu skref og kalla eftir tillögum og samvinnu við komandi verkefni. Það ber að hrósa fagfólki fyrir faglega framgöngu og ég hef fengið að heyra úr röðum sjúklinga nú síðustu daga að þau dáist að starfsmönnum sem láta á engan hátt erfiðar aðstæður síðustu vikna bitna á framkomu eða þjónustu við sjúklinga.“
Herdís segist geta skilið reiði starfsmanna í garð stjórnar SÍBS. Hún segir það þó lykilatriði að nú sé búið að fullskipa framkvæmdastjórn Reykjalundar að nýju og að aðkomu stjórnar SÍBS að starfinu sé lokið.
„Það er rétt að hafa í huga að óánægja starfsmanna, sem meðal annars birtist á starfsmannafundi í síðustu viku, beindist að stjórn SÍBS og tímabundinni aðkomu hennar að stjórnun Reykjalundar meðan formaður SÍBS var á 2 vikna tímabili einnig starfandi forstjóri á Reykjalundi. Nú hafa sérstakar ráðstafanir verið gerðar þar sem aðkomu stjórnar SÍBS að daglegri starfsemi Reykjalundar sem og að framkvæmdastjórn er lokið. Forstjóri og framkvæmdastjórn Reykjalundar stýrir stofnuninni. Þannig hefur framkvæmdastjórn Reykjalundar nú verið fullskipuð og er reiðubúin að takast á við þau verkefni sem fram undan eru,“ segir Herdís.
„Það er vissulega áhyggjuefni að starfsfólk, sem hér hefur starfað um langan aldur, hafi ákveðið að segja upp störfum enda alltaf erfitt að horfa á eftir góðu starfsfólki. Ég geri ráð fyrir að slíkar ákvarðanir taki starfsfólk að vandlega athuguðu máli og því ber að virða þær sem persónulegar ákvarðanir fólks.“
Herdís segir það ekki rétt að sú staða sem upp er komin á Reykjalundi ógni því starfi sem þar fer fram og þjónustu við sjúklinga.
„Ég tel enga ástæðu að ætla að sú staða, sem nú hefur komið upp á Reykjalundi, ætti að bitni með einhverjum hætti á sjúklingum eða hafa áhrif á þjónustu við þá. Ég bendi á í dæmaskyni að á liðnum áratugum hafa oftsinnis risið deilur á milli heilbrigðisstarfsfólks og stéttarfélaga þeirra og vinnuveitenda einkum vegna kjaramála sem meðal annars hafa leitt til verkfalla. Engu að síður er það svo að heilbrigðisstarfsfólk er fagfólk og gætir ávallt að þörfum sjúklinga og lætur slíkar deilur undir engum kringumstæðum bitna á þeim sem eru í þörf fyrir þjónustu,“ segir Herdís.
Þá segir Herdís það engan veginn rétt að hún og nýr framkvæmdastjóri lækninga, Ólafur Þór Ævarsson, séu handbendi stjórnar SÍBS, líkt og formaður læknaráðs Reykjalundar hefur sagt í fjölmiðlum.
„Við Íslendingar búum í lýðfrjálsu landi þar sem hver og einn einstaklingur hefur rétt á að tjá sínar skoðanir. Sjálf er ég líka fylgjandi að samferðarmenn láti skoðanir sínar í ljós og geri grein fyrir þeim og skýri. Það er í sjálfu sér ekkert við það að athuga að formaður læknaráðs kjósi að tjá sig í fjölmiðlum um mál sem þessi. Hins vegar er mjög mikilvægt að slík umfjöllun sé málefnaleg og að allra staðreynda sé gætt,“ segir Herdís.
„Ég hóf störf á Reykjalundi í byrjun þessa mánaðar sem framkvæmdastjóri endurhæfingarsviðs. Framkvæmdastjóri lækninga hóf störf um miðjan þennan mánuð. Í báðum tilvikum fóru ráðningar fram að undangengnum opinberum auglýsingum og viðeigandi ráðningarferli þar sem sérstakt mat var lagt á hæfni umsækjenda. Sjálf var ég ráðin til starfa á Reykjalund af fyrrverandi forstjóra,“ segir Herdís.
„Um hæfi framkvæmdastjóra lækninga til að gegna starfinu þurfti mat stöðunefndar embættis landlæknis sem mat Ólaf Þór hæfan, og reyndar hæfan langt umfram þau viðmið sem til þarf til að uppfylla slík skilyrði. Ólafi var boðið starfið eftir hefðbundið ráðningarferli þar sem vel var vandað til allra verka.
„Ummæli formanns læknaráðs um við að séum handbendi stjórnar SÍBS og okkur ekki treystandi dæma sig sjálf. Aðdragandi ráðningar okkar var í fullu samræmi við þau viðmið sem ráðningar til Reykjalundar og annarra heilbrigðisstofnana hafa grundvallast á um langan tíma. Tímabundið starf mitt sem forstjóri kemur hins vegar til í ljósi þeirrar stöðu sem upp var komin hjá Reykjalundi eftir að ég hóf störf. Nú er hafið undirbúningsferli að ráðningu forstjóra til frambúðar,“ segir Herdís.
Herdís segir það ekki hafa verið auðvelda ákvörðun að taka við stöðu forstjóra við þær aðstæður sem upp voru komnar.
„Ég skal fúslega viðurkenna að það að taka tímabundið við stöðu forstjóra hér við þessar aðstæður var á engan hátt auðveld ákvörðun. En ég tók ákvörðunina af yfirvegun eftir góða umhugsun. Það sem fékk mig til þess að gefa kost á mér við þessar erfiðu aðstæður er sá grundvöllur sem ég stend á sem stjórnandi í heilbrigðisþjónustu. Leiðarljós mitt er ávallt að sjúklingurinn er í forgrunni og mikilvægi þess að stjórnandi og leiðtogi í heilbrigðisþjónustu geri sér alltaf grein fyrir því að verkefnið er alltaf stærra, merkilegra og mikilvægara en hann sjálfur,“ segir Herdís.
„Ég viðurkenni að þetta eru ekki þær kringumstæður sem ég hefði kosið, hvorki við upphaf starfa minna sem framkvæmdastjóri endurhæfingarsviðs né tímabundið sem forstjóri Reykjalundar. Af minni hálfu er þó alls engin eftirsjá að hafa ráðið mig hingað til starfa enda er starfsemin áhugaverð og raunar tilhlökkun sem því fylgir að takast á við þau faglegu verkefni sem fram undan eru. Það er trú mín og ég er þess fullviss að okkur muni takast að koma málum hér í gott horf öllum til hagsbóta og tryggja og treysta grundvöll starfseminnar enn frekar til framtíðar litið.“