Biðtími kvenna eftir sérskoðun, vegna grunsemda á brjóstakrabbameini, hjá lækni á Landspítala er að meðaltali 35 almanaksdagar. Skorað er á framkvæmdastjórn Landspítala og heilbrigðisráðherra að stytta biðtímann.
„Þungum áhyggjum er lýst af því hvernig biðtími hefur lengst eftir frekari skoðunum í kjölfar skimana fyrir brjóstakrabbameinum. Jafnframt er lýst áhyggjum af löngum biðtíma sem getur verið eftir viðtali hjá skurðlæknum.“ Þetta segir í áskorun sem var samþykkt á málþinginu „Þú ert ekki ein“ sem haldið var þann 15. október síðastliðinn í tilefni af Bleika
mánuðinum.
Bent er á að samkvæmt evrópskum gæðaviðmiðum EUREF (European Reference Organisation for Quality Assured Breast Cancer Screening) segi að vakni grunur um krabbamein í reglubundinni skimun, skuli tími í frekari skoðun liggja fyrir innan 5 virkra daga
„Það er algjörlega óviðunandi staða fyrir konur að svo langur tími líði frá því að þær mæta í skimun þar til þær eru kallaðar inn í frekari skoðun. Enda er það raunin að oft kemur innköllunin þeim algerlega í opna skjöldu. Á þessu þarf nauðsynlega að finna varanlega lausn.“ Þetta er haft eftir Brynju Björk Gunnarsdóttir, formanni Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna, í tilkynningu.