Suðurnesjalína 2 verði lögð að mestu í lofti

mbl.is/​Hari

Matsskýrsla vegna Suðurnesjalínu 2 og helstu athugasemdir liggja hjá Skipulagsstofnun og bíða þar samþykkis að því er segir í fréttatilkynningu frá Landsneti.

„Þegar því er lokið verður farið í áframhaldandi viðræður við landeigendur og sótt um framkvæmdaleyfi fyrir línunni. Skýrslan og helstu athugasemdir hafa verið kynntar hagsmunaaðilum um framkvæmdina, þar á meðal fulltrúum frá sveitarfélögum á svæðinu, náttúruverndarsamtökum og landeigendum,“ segir enn fremur.

Lagt er til í skýrslunni að Suðurnesjalína 2 verði lögð að mestu í lofti. Fram kemur í tilkynningunni að það sé hagkvæmasta leiðin sem valdi minnstu jarðraski og falli að stefnu stjórnvalda. Möstur línunnar verði að mestu samhliða núverandi Suðurnesjalínu 1 og því verði þannig hægt að samnýta línuveginn sem fyrir er.

Markmiðið með byggingu Suðurnesjalínu 2 sé að bæta afhendingaröryggi raforku og skjóta um leið traustari stoðum undir atvinnulíf og byggðaþróun á Suðurnesjum. Miklu skipti fyrir afhendingaröryggi á svæðinu að framkvæmdin tefjist ekki en ef allt gangi eftir gætu framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 hafist að nýju á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert