Fjarkönnun með drónum, hitamyndavélar og rannsóknir á borkjörnum er meðal þess sem notað hefur verið við fornleifaskráningu og -rannsóknir í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Þar er sagan í hverju skrefi og sérstaða Þingvalla er mikil þar sem mikið er til af ritheimildum bæði í fornritum sem og öðrum heimildum.
Notkun á nýjustu tækni hefur leitt til þess að minjar hafa bæst við þær sem áður voru þekktar og hægt er að greina betur eldri minjar undir þeim yngri og lögun minja verður skýrari. Einnig hefur verið hægt að staðsetja minjar sem voru skráðar á 19. og byrjun 20. aldar en staðsetning hafði verið á reiki.
Einar Á.E. Sæmundsen þjóðgarðsvörður segir að fornleifaskráning hafi staðið yfir á Þingvöllum með hléum síðan árið 2010, en síðustu tvö ár hafi verið settur kraftur í verkefnið. Hann segir að rannsóknir síðustu tveggja ára hafi skilað margvíslegum niðurstöðum. Margrét Hrönn Hallmundsdóttir fornleifafræðingur hefur haldið utan um vinnuna frá upphafi og unnið náið með þjóðgarðsverði sem hefur verið tengiliður við verkefnið. Gunnar Grímsson, fornleifafræðinemi og áður landvörður á Þingvöllum, hefur séð um drónaloftmyndatökur og þróað aðferðir við að nýta þá tækni í þessari vinnu.
Á Miðmundatúni, fyrir sunnan Þingvallabæinn, hefur verið notast við borkjarna og fjarkönnun til rannsókna. Stór skáli hefur smátt og smátt komið í ljós án þess að yfirborði hafi verið raskað, en með nýrri tækni er hægt að finna útlínur búðatófta. Þannig hafi fyrri vísbendingar um stóran skála verið staðfestar á nokkuð öðrum stað en hefðbundið var að horfa til í þinghelginni, að sögn Einars.
Fundist hafa miklar minjar á Miðmundatúni síðustu áratugi, m.a. húsgrunnar og hleðslur að byggingum. Þar fannst árið 1957 kopargripur sem síðar kom í ljós að var biskupsbagall sem er skreyttur endi á stöfum biskupa eða ábóta. Gripurinn er einn af kjörgripum Þjóðminjasafnsins enda var hann greindur frá fyrri hluta 11. aldar.
Skömmu eftir aldamót gerði Fornleifastofnun Íslands ses. rannsóknir á mörgum stöðum á Þingvöllum með stuðningi kristnihátíðarsjóðs. Rannsóknir voru m.a. gerðar í Miðmundatúni, þar sem gerðir voru könnunarskurðir og síðar var svæði opnað til frekari rannsókna. Í ljós kom þykkur veggur úr torfi og grjóti og svart gólflag.
Rannsakendur veltu því upp að mögulega væri um að ræða minjar um fyrstu búsetu á Þingvöllum eða óþekktar þingminjar. Þó voru vísbendingar um varanlegri búsetu en ætla má af þingminjum. Meðal annars var fjallað um þessar rannsóknir í Morgunblaðinu 14. júlí 2006 undir fyrirsögninni: „Breytir mynd okkar af Þingvöllum“.
Í rannsóknum í Miðmundatúni í sumar voru borkjarnar teknir í beinni línu út frá gólfinu sem rannsakað var af Fornleifastofnun. Í ljós kom gólflag beggja vegna sem staðfestir að húsið gæti verið allt að 30 metra langt. Einnig komu fram merki um fleiri byggingar í kring. Sett var út hnitakerfi og tekinn borkjarni sem staðfesti stærri byggingu.
„Þegar allt er tekið saman eru mjög sterkar vísbendingar um að í Miðmundatúni sé stór skáli og fleiri byggingar sem líklega tengjast fyrstu búsetu á Þingvöllum. Vonir standa til að hægt verði að kortleggja þær byggingar enn frekar á næsta ári með fjarkönnun,“ segir í samantekt þjóðgarðsvarðar.
Drónamyndir og myndir teknar með hitamyndavélum, sem og þrívíddarmyndgreining, leiddu til þess að gerð var borkjarnarannsókn á nokkrum stöðum í búðum innan þinghelginnar. Var þar staðfest að veggjabrot sem koma fram á þessum myndum voru af eldri þingbúðum sem yngri og minni búðir frá hinu svokallaða síðara búðaskeiði, 17.-18. öld, eru byggðar ofan á. Eldri búðirnar virðast töluvert stærri og kemur það heim og saman við lýsingar á búðum frá þjóðveldisöld, samkvæmt samantekt frá þjóðgarðsverði.
Einar segir að drónamyndir hafi sýnt þyrpingar minni búða hér og þar í þinghelginni, sérstaklega vestan megin ár, einnig í kringum kirkjuna og út á Spöng. Þessar þústir gefist væntanlega tækifæri til að skoða og greina síðar. Á Spönginni hafi svæðið verið rannsakað norðar en áður og þar hafi fundist leifar af mannvirki sem ekki hafi áður verið skráð. Einar segir líklegt að þar sé um búðarþúst að ræða, en erfitt sé að greina það návæmlega í gegnum grasið og svörðinn.
„Á Spönginni eru minjar sem eru hringlaga og gerðar úr torfi og ofan á þeim er yngri þingbúð. Margir telja að á Spönginni hafi Lögberg verið fram að kristnitöku þegar það var fært nærri Öxará og oft er talað um hið heiðna lögberg á Spöng.
Við vettvangsrannsókn komu í ljós mögulegar minjar aftar á Spönginni sem engar heimildir eru um. Voru þessar minjar mjög sokknar og ógreinilegar. Við borkjarnarannsókn kom í ljós að þarna eru torflög sem staðfesta að þarna hafa verið byggingar úr torfi. Fleiri minjar fundust því á Spöng en áður var vitað um,“ segir í samantektinni.
Einar rifjar upp að þegar Þingvellir fóru á heimsminjaskrá árið 2004 hafi verið stefnt að því að rannsaka og gera fornleifaskráningu fyrir þjóðgarðinn og sérstaklega þinghelgina. Til að raska ekki minjum á yfirborði hafi verið hvatt til þess að nota fjarkönnun og loftmyndir og slíka aðferðafræði og unnið hafi verið í þeim anda. Einar segir að þrátt fyrir þetta hafi hann mikinn áhuga á að búðarúst verði grafin upp í samvinnu við Minjastofnun og aðra sem að málinu kunna að koma.
„Á þennan hátt myndum við öðlast aukinn skilning á því hvernig búðirnar voru byggðar og nýttar,“ segir Einar. „Jafnframt yrði þessi fornleifarannsókn gerð sýnileg og auk þess að nýtast fræðunum og háskólasamfélaginu yrði verkefnið til fróðleiks fyrir ferðamenn. Síðan mætti meta hvort vilji væri til að byggja búðina upp og gera sýnilega fólki.“
Einar segir að verkefnin séu óþrjótandi við rannsóknir á fornminjum á sögustaðnum Þingvöllum. Meðal annars hafi verið stefnt að því að kanna nánar mannvistarleifar neðan vatnsborðsins. Vitað sé að strandlengjan hafi sigið um 3-5 metra á sögulegum tíma og vitað sé um hluta af mannvirkjum, t.d. túngarða neðan vatns. Einnig hafi sést á drónamyndum að mögulega séu fleiri rústir í Öxará en vitað var um.
„Það væri mjög spennandi að beina augum að fornleifafræði neðan vatns á komandi árum,“ segir Einar. Kevin Martin hefur unnið að þessu verkefni í þjóðgarðinum, en hann er neðansjávarfornleifafræðingur.
Í haust fengu Landmælingar formlega afhentar örnefnaskrár þjóðgarðsins. Einar segir að örnefnin séu að stórum hluta sótt í eldri skrár og hafi hátt í þúsund örnefni verið færð í rafrænar skrár. Jafnframt muni Minjastofnun fá gögn um skráðar fornleifar og þau verði einnig aðgengileg á vefsjá þjóðgarðsins.
Í rannsókninni hafa verið gerðar skráningar á Vatnskoti, Skógarkoti og Hrauntúni. Að auki hefur Gunnar Grímsson fornleifafræðinemi notað dróna til að finna vísbendingar um nokkur miðaldabýli sem getið er um í heimildum en nákvæm staðsetning var óljós.
Gunnar notaði ritheimildir sem og fullkominn dróna með hitamyndavél og flaug yfir svæði þar sem talið var að býlin væru. Fann hann með þessari aðferð vísbendingar um minjar sem voru oft á tíðum á öðrum stöðum en heimildir og örnefni bentu til. Þegar hann hafði með þessum myndum og greiningu á þeim fundið líklega staði var farið með jarðvegsbor og borkjarnar teknir. Reyndist með þessum aðferðum unnt að staðfesta að um býli var að ræða.
Eyðibýlin Grímastaðir, Litla-Hrauntún, Hrafnabjörg og Rótólfsstaðir hafa nú verið staðsett. Þá hefur stór sporöskjulaga girðing verið staðsett í Múlakoti. Borkjarnasýni sýndu gólflög á öllum stöðunum, sem er talið benda til að þarna hafi verið föst búseta en ekki aðeins seljabúskapur. Margar þessara rústa eru mjög yfirgrónar og mjög erfitt að sjá þær með berum augum og sýnir það hversu mikilvæg þessi tækni er við fornleifarannsóknir.
Heimildir eru um enn fleiri býli og því ekki óhugsandi að með áframhaldandi rannsóknum finnist fleiri og óþekkt býli, segir í samantekt þjóðgarðsvarðar.