Ebba Margrét Magnúsdóttir, formaður Læknaráðs Landspítalans, segir að það sé frekar ríkisvaldsins en spítalans að bregðast við fjögurra milljarða króna halla Landspítalans. Fyrirhugaðar niðurskurðaraðgerðir á spítalanum séu til þess fallnar að skerða öryggi sjúklinga.
„Við vitum ekki alveg hvað verður úthlutað úr næstu fjárlögum en ráðamenn verða að endurskoða þetta mál og spara einhvers staðar annars staðar,“ segir Ebba.
Í samtali við mbl.is í gær sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, að nú yrði ráðist í umfangsmiklar sparnaðaraðgerðir á spítalanum. Viðhaldi verður að einhverju leyti frestað, ítrasta aðhalds gætt við innkaup, launafyrirkomulag endurskoðað og ekki verður ráðið í vissar stöður sem losna. Markmiðið er að skera rekstrarkostnað spítalans niður um tæpan milljarð á þessu ári og tvo og hálfan milljarð á ársgrundvelli, þ.e. á næsta ári.
Ebba bendir sérstaklega á að ríkið hafi ekki fjármagnað þá kjarasamninga sem það hafi gert við starfsfólk spítalans. Um 70% af rekstrarkostnaði Landspítalans er launakostnaður.
„Frá hruni hefur verið dregið saman og fólk látið hlaupa hraðar. Síðan voru gerðir kjarasamningar við lækna og eru kjarasamningar nú lausir við lækna, ljósmæður og hjúkrunarfræðinga en þeim hafa ekki fylgt peningar. Það er samið við stéttirnar en ríkisvaldið sem semur lætur spítalann ekki hafa peninginn.“
Ýmsar breytingar verða gerðar á kjörum starfsfólks á niðurskurðartímabilinu. Til að mynda stendur til að leggja tilraunaverkefnið Hekluverkefni af við gerð næstu kjarasamninga. Í því fólust m.a. álagsgreiðslur til hjúkrunarfræðinga til að fást við langvarandi mönnunarvanda á spítalanum.
Ebba segir niðurskurðaraðgerðirnar ekki í samræmi við raunveruleikann.
„Við heyrum alla daga í fréttum um frestanir á aðgerðum, skort á rúmum og hjúkrunarfræðingum. Á sama tíma á að skera niður og taka Hekluálagið af hjúkrunarfræðingum sem er náttúrulega eins og blaut tuska framan í fólk sem er að hlaupa og reyna sitt besta,“ segir Ebba.
Ebba hefur áhyggjur af öryggi sjúklinga. „Ég held að það muni gleymast að setja sjúklinginn í öndvegi í þeirri viðleitni að reyna að reka þetta fyrirtæki á minni pening. Það bara kostar þetta að reka spítala. Það sem hefur gerst á síðustu tíu árum, frá hruni, er að kulnun í starfi hefur aukist, sömuleiðis veikindi vegna aukins álags og kærum á hendur starfsmönnum hefur fjölgað vegna þess að starfsfólk er látið vinna of hratt.“
Ebba setur spurningarmerki við þau fjárframlög sem spítalanum eru veitt. „Ég vil að ráðamenn gefi þarna í það sem þarf. Spítalinn er á vakt alla daga, allan ársins hring, allar helgar, jól og páska fyrir landið og miðin. Við lokum aldrei og við verðum að geta sinnt starfi okkar án þess að fyrirtækið sé rekið með tapi og allt sé að fara á hausinn og nú verðum við að gefa í. Við erum búin að gera það.“
Ebba segir að vissulega sé hægt að spara að einhverju leyti en það þurfi þó frekar að gefa í.
„Páll er að reyna en ég held að það sé ógerlegt. Ég held að það muni bitna á starfseminni, öryggi sjúklinganna og gæðum vinnunnar og mun jafnvel verða til þess að fleiri muni hugsa sér til hreyfings. Þetta er ekki tónn sem við viljum fá inn í nýja heilbrigðisstefnu sem miðar að því að auka vellíðan í starfi og fjölga hjúkrunarfræðingum. Þetta er frekar til þess fallið að fæla fólk frá.“
Ebba bendir á að rekstur spítalans sé ekki sambærilegur öðrum rekstri. „Þetta er ekki verksmiðja þar sem þú getur lokað einni línu. Ef þú ætlar að spara svona rosalega mikið þá þarftu náttúrulega að skerða einhverja þjónustu og segja: „Við gerum ekki þessar aðgerðir.“ Á sama tíma erum við með aukna biðlista eins og til dæmis í liðskiptaaðgerðirnar og þá er ríkið að borga fólki til þess að fara til útlanda til að fara í þessar aðgerðir sem er svo mikil klikkun.“
Í niðurskurðinum felst m.a. frestun á viðhaldsverkefnum. Undanfarið hefur ítrekað komið upp mygla og annars konar skemmdir á húsnæði spítalans og fólk jafnvel veikst af þeim sökum.
„Kvennadeild og geðdeild eru í mjög gömlu húsnæði og eiga að vera það áfram. Það kemur náttúrulega ekki til greina að viðhaldi þar verði ekki sinnt,“ segir Ebba.
Hún er ekki vongóð um að miklar breytingar verði á fjárframlögum til spítalans í næstu fjárlögum.
„Ég skora á stjórnvöld að reikna dæmið upp á nýtt, hætta að tala um taprekstur og gefa í með því að auka fjárframlög til Landspítalans svo við getum sinnt okkar starfi eins vel og við viljum sinna því.“