Hildur sjónvarpstónskáld ársins

Hildur Guðnadóttir var í gærkvöldi útnefnd sjónvarpstónskáld ársins á World Soundtrack awards sem haldin er árlega í belgísku borginni Ghent.

Verðlaunin hlaut hún fyrir tónlistina í sjónvarpsþáttaröðinni Chernobyl.

Hildur er að skapa sér gott orð sem sjónvarpstónskáld þessa dagana, en í september hlaut hún Emmy-verðlaun fyrir tónlist þessarar sömu þáttaraðar, auk þess sem tónlist hennar í kvikmyndinni Joker hefur verið lofsömuð, meðal annars af aðalleikara kvikmyndarinnar, Joaquin Phoenix.

Í þakkarræðu sinni lofaði Hildur samstarfsfólk sitt en tileinkaði móður sinni verðlaunin, en hún trúði á mátt tónlistarinnar og seldi bílinn til þess að kaupa fyrsta sellóið handa Hildi og tók þess í stað strætó í vinnurnar sínar þrjár.

Hægt er að horfa á myndskeið frá verðlaunaafhendingunni með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert