„Það er náttúrulega rakin snilld að fara í allt þetta umstang í kosningum þar sem aðeins einn er í framboði. Þetta gæti enginn flokkur nema við,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og fundarstjóri á landsfundi Vinstri grænna þegar kjósa átti í embætti formanns flokksins.
Katrín Jakobsdóttir var ein í framboði og var hún endurkjörin með öllum atkvæðum viðstaddra, 187 talsins.
Tilkynnt hafði verið í aðdraganda fundarins, að hann yrði bæði kjöt- og pappírslaus af umhverfisástæðum, og þess í stað yrði kosið rafrænt. Tæknin var þó eitthvað að stríða fundarmönnum og brá Steingrímur fundarstjóri að lokum á það ráð að kjósa fyrir allra augum. Heppilega höfðu rauð og græn pappírsspjöld sem á var letrað Já og Nei verið undirbúin undir fundinn pappírslausa og eftir að hafa borið undir fundarmenn hvort einhver setti sig upp á móti slíkri atkvæðagreiðslu, sem enginn gerði, var látið til skarar skríða.
Áður en að því kom spurði fundarstjóri hvort einhver óskaði þess að fjölmiðlum yrði vísað úr salnum meðan á kosningunni stóð, úr því hún væri jú fyrir allra augum. Ósk um það barst og þurftu fjölmiðlamenn og ljósmyndarar, sem sóttu fundinn, því að bíða frammi á gangi rétt á meðan á atkvæðagreiðslunni stóð. Samtímis sat blaðamaður mbl.is uppi í Hádegismóum og horfði á kosningarnar í beinni, enda fundinum streymt á heimasíðu VG. Hinir brottreknu missti þó af litlu enda formaðurinn kjörinn samhljóða, eins og fyrr segir.
Stutt hlé var gert á fundinum að atkvæðagreiðslu lokinni, meðan unnið var í tæknimálum. Til stendur að kjósa í embætti varaformanns en þar er aðeins einn í framboði, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. Að svo búnu verður kosið í stjórn, en þar komast færri að en vilja.
Leysist tæknivandamálin ekki innan skamms hefur fundarstjóri boðað að gripið verði til blaðs og blýants.