Milljarða framúrkeyrsla stjórnunarmistök

„Það þarf líka að fara vel með það fjármagn sem …
„Það þarf líka að fara vel með það fjármagn sem gefið er. Það mega ekki vera svona handahófskenndar ákvarðanatökur eins og við sáum á þessu ári varðandi innleiðingu jafnlaunavottunar og það að hygla einstökum starfsstéttum umfram aðrar,“ segir Reynir. mbl.is/​Hari

Formaður Læknafélags Íslands segir að „handahófskenndar ákvarðanatökur“ í formi innleiðingar jafnlaunavottunar og ívilnana hafi spilað stórt hlutverk í framúrkeyrslu Landspítalans. Jafnframt segir hann að fjögurra milljarða framúrkeyrslu megi flokka sem stjórnunarmistök.

Sex mánaða upp­gjör spít­al­ans, sem birt var í sum­ar, sýndi að að óbreyttu stefndi í hátt í fimm millj­arða króna framúr­keyrslu í ár.

„Í fyrsta lagi viljum við taka undir að við höfum áhyggjur af langvarandi fjárhagsvanda Landspítalans. Það er stöðugt verið að bæta við verkefnum á sjúkrahúsið sem væri skynsamlegra að væru í höndum annarra sem gætu veitt þjónustuna á hagkvæmari hátt og væru ekki að taka mannafla frá kjarnastarfsemi spítalans,“ segir Reynir Arngrímsson formaður Læknafélags Íslands.

Í sam­tali við mbl.is í gær sagði Páll Matth­ías­son, for­stjóri Land­spít­al­ans, að nú yrði ráðist í um­fangs­mikl­ar sparnaðaraðgerðir á spít­al­an­um.

830 milljóna ófjármagnaður pakki

„Núverandi framúrkeyrslu verður að flokka sem stjórnunarmistök. Í fyrsta lagi vegna þess að þegar allur spítalinn er undir miklu álagi er einstökum starfsstéttum hyglt með ívilnunum umfram samningsviðmið og áætlanir ríkisins á fjárlögum,“ segir Reynir sem telur að þarna hafi spítalinn gert mistök. Þessar ívilnanir hafi átt við hjúkrunarfræðinga og ljósmæður en ekki aðrar starfsstéttir spítalans.

„Engar áætlanir voru til um það hvernig ætti að fjármagna pakkann sem var kominn upp í tæpan milljarð eða 830 milljónir þegar gripið var inn í.“

Í öðru lagi nefnir Reynir innleiðingu jafnlaunavottunar sem kostaði Landspítalann 320 milljónir króna. Að sögn Reynis var gripið til starfsmatskerfis frá Bretlandi sem hafi verið kostnaðarsamt.

„Eins konar stofnanasmnings í breska heilbrigðiskerfinu þar sem læknar voru ekki með í dæminu. Niðurstöður úttektar á aðlögun Landspítalans sýna, að mati Læknafélagsins, að það nær hvorki að fanga frumkröfur sem gerðar eru til læknastarfsins né eðli og inntak þess. Þarna er alvarlega misfarið með fé spítalans og við bendum á að aðrar heilbrigðisstofnanir sem og Háskóli Íslands hafa í sínu jafnlaunavottunarferli farið aðrar leiðir sem kosta brot af þessari upphæð. Það sama má segja um helstu stórfyrirtæki landsins. Hér hefði miklum fjármunum verið betur varið í beina þjónustu við sjúklinga spítalans.“

Reynir segir að skýringar framúrkeyrslunnar sé ekki hægt að rekja …
Reynir segir að skýringar framúrkeyrslunnar sé ekki hægt að rekja til kjarasamninga nema að litlu leyti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sýni mikilvægi stjórnar

Reynir segir að ofangreind dæmi sýni mikilvægi þess að stjórn sé sett yfir spítalann eins og tíðkast í öðrum atvinnurekstri.

„Þar sem forstjóri og framkvæmdastjórn lúti eðlilegu aðhaldi stjórnar og stuðnings við ákvarðanir sem þarf að taka við reksturinn.“

Forstjóri Landspítalans sagði í samtali við mbl.is í gær að kostnaður við kjarasamninga hafi verið vanmetinn og að hluta til mætti rekja framúrkeyrslu spítalans til þess.

„Varðandi kjarsamning lækna frá 2015 sem forstjórinn hefur verið að vísa í í fjölmiðlum þá verður ekki séð hann vegi þungt þegar helstu skýringar eru skoðaðar á þeirri 4,3 milljarða framúrkeyrslu sem var kynnt í júlí. Það sést bersýnilega í útkomuspánni sem hann hefur kynnt fyrir læknaráði og er byggð á stöðu bókhaldsins í júlí ,“ segir Reynir.

„Hefði átt að byrgja brunninn áður en barnið féll ofan í hann

Spurður um skoðanir sínar á niðurskurðaraðgerðum segir Reynir. „Við vildum að þessi staða hefði ekki komið upp. Það hefði átt að byrgja brunninn áður en barnið féll ofan í hann. Það er alveg ljóst að það þarf að bregðast við með einhverjum hætti innan spítalans og ég held að það sé alveg ljóst að það sé erfitt að gera það án þess að það bitni á þjónustu spítalans við sjúklinga.“

Ebba Mar­grét Magnús­dótt­ir, formaður Lækn­aráðs Land­spít­al­ans, sagði fyrr í dag að spítalinn þyrfti einfaldlega meira fjármagn. Reynir er ekki ósammála því.

„En það þarf líka að fara vel með það fjármagn sem gefið er. Það mega ekki vera svona handahófskenndar ákvarðanatökur eins og við sáum á þessu ári varðandi innleiðingu jafnlaunavottunar og það að hygla einstökum starfsstéttum umfram aðrar þegar allur spítalinn er undir álagi.“ Læknafélag Íslands hefur vakið athyli forstjóra Landspítalans á því.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert