Telur niðurskurðaraðgerðir ótímabærar

„Það sem fór í gegnum hugann á mér þegar ég …
„Það sem fór í gegnum hugann á mér þegar ég las um niðurskurðinn var það að það er eins og þessir fjármunir fari inn í eitthvað svarthol,“ segir Sandra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í raun er þetta algjörlega ótímabær umræða. Það er hvorki búið að ákveða né samþykkja fjárlögin. Sá hluti er eftir. Þegar það liggur fyrir þá hljóta fjárlögin að taka mið af þjónustunni sem á að veita á spítalanum,“ segir Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands. 

Sandra telur niðurskurðaraðgerðir á Landspítalanum í mótsögn við markmið spítalans sem lýtur að því að fjölga sjúkraliðum. Þá sé niðurskurðurinn sömuleiðis í mótsögn við þá kjarabaráttu sem Sjúkraliðafélag Íslands er í.

Í samtali við mbl.is í gær sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, að nú yrði ráðist í umfangsmiklar sparnaðaraðgerðir á spítalanum. Viðhaldi verður að ein­hverju leyti frestað, ítr­asta aðhalds gætt við inn­kaup, launa­fyr­ir­komu­lag end­ur­skoðað og ekki verður ráðið í  viss­ar stöður sem losna. Markmiðið er að skera rekstrarkostnað spítalans niður um tæp­an millj­arð á þessu ári og tvo og hálf­an millj­arð á árs­grund­velli, þ.e. á næsta ári.

Framlögin taki ekki mið af þjónustu

 „Ef það á að reka þessa þjónustu með sífelldum niðurskurði þá þarf náttúrulega að gera úttekt á því hvaða þjónustu spítalinn á yfir höfuð að veita,“ segir Sandra sem sér ekki fyrir sér að svigrúm sé fyrir því að skerða starfskjör sjúkraliða með neinum hætti. 

Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.

Hún telur að fjárframlög til Landspítalans taki ekki mið af þeirri þjónustu sem spítalinn á að veita. Páll sagði í fyrrnefndu viðtali að kostnaður hafi verið van­met­inn við ýmsa kjara­samn­inga sem hafi verið gerðir við helstu stétt­ir spítalans og um sé að ræða mjög háar upp­hæðir sem hlaupi á millj­örðum.

„Ég held að spítalinn reyni að koma til móts við þjónustuþörfina en fjárlögin þurfa að taka mið af því. Það þarf náttúrulega líka að gera grein fyrir því í fjárlögum hver launakostnaðurinn er og hver hann á að vera. Ef það er ekki tekið tillit til raunverulegra launaútgjalda starfsmanna þá verður náttúrulega alltaf einhver halli á rekstrinum, það segir sig sjálft.“

Spítalinn geti ekki rekið sig ef starfskjör sjúkraliða verði skert

Sandra telur Landspítalann ekki illa rekinn þó eflaust mætti taka til á einhverjum stöðum í rekstrinum. 

„Það sem fór í gegnum hugann á mér þegar ég las um niðurskurðinn var það að það er eins og þessir fjármunir fari inn í eitthvað svarthol. Það er eins og þeir týnist og fólk átti sig ekki á því hvernig þeim er varið. Ef rekstur spítalans væri gagnsærri þá gætum við séð hvar það er nákvæmlega þar sem fjármununum er varið óskynsamlega og hvar sé hægt að taka saman og hagræða.“

Sandra ítrekar að það sé ekki raunhæft að skerða kjör sjúkraliða. 

„Það er ákveðin mótsögn í því að á meðan við erum í þeirri vegferð að fjölga sjúkraliðum að þá sé verið að skera niður. Við erum í þessum kjaraviðræðum og við erum að beita okkur styttingu vinnuvikunnar. Þar sem við erum að gera kröfu á styttingu vinnuvikunnar og bætt starfskjör sjúkraliða þá er ekki tímabært að fara í niðurskurð,“ segir Sandra og heldur áfram:

„Við sjúkraliðar erum láglaunastétt, því ætlum við að reyna að breyta. Það þarf náttúrulega að meta launin í samræmi við menntun og þau verkefni sem sjúkraliðum er falið að sinna. Ef það á að skera niður þar þá sé ég ekki fyrir mér að þessi spítali geti rekið sig þar sem við erum næststærsta starfsstétt spítalans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka