Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, bregður fyrir í kvikmyndinni Þvottahúsið (The Laundromat), sem framleidd er af streymisveitunni Netflix og var gefin út í gær.
Kvikmyndin segir frá konu, leikinni af Meryl Streep, sem flækist inn í vafasama fjármálagjörninga lögmannsstofunnar Mossack Fonseca í Panama og hvernig spilaborgin hrynur þegar Panama-skjölunum er lekið í fjölmiðla.
Aðalpersóna myndarinnar fréttir af því þegar hún situr í sakleysi sínu á almannafæri og horfir á sjónvarpið. Á skjánum birtist frétt úr miðlinum Time þar sem sagt er frá því að Sigmundur Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi sagt af sér embætti forsætisráðherra Íslands eftir að hafa verið afhjúpaður í lekanum. Samflokksmaður hans, Sigurður Ingi Jóhannsson, hafi tekið við.
Engin mynd birtist af Sigmundi, en mynd af Sigurði Inga fær að njóta sín á stærstum hluta skjásins.
Fjöldi stórstjarna fer með hlutverk í myndinni. Gary Oldman og Antonio Banderas leika höfuðpaurana, Mossack og Fonseca, og David Schwimmer, sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Ross í sjónvarpsþáttunum Friends, kemur einnig við sögu.