Hríðarveður og versnandi akstursskilyrði

Spár gera ráð fyrir hálku og litlu skyggni á fjallvegum, …
Spár gera ráð fyrir hálku og litlu skyggni á fjallvegum, eins og Holtavörðuheiði. Mynd úr safni. mbl.is/Gúna

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austfjörðum og Suðausturlandi. Viðvaranirnar taka gildi á hádegi og gilda til miðnættis.

Spáð er hríðarverði og versnandi akstursskilyrðum á norðanverðu landinu í dag, einkum á heiðum. Einnig er búist við hvassviðri eða stormi frá Öræfum til Austfjarða síðdegis, sem getur verið varasamt ökutækjum, sem viðkvæm eru fyrir vindi.

Spár gera ráð fyrir hríðarveðri á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Snjókoma og skafrenningur verður til fjalla og lítið skyggni og hálka á heiðavegum. Vegfarendur aki eftir aðstæðum.

„Leiðinlega hvasst“ á Suðausturlandi

Á Austfjörðum og Suðausturlandi er spáð norðvestanhvassviðri eða -stormi. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll 25-35 m/s, sem geta verið varhugaverðar fyrir vegfarendur með aftanívagna eða á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.

Á heimasíðu Vegagerðarinnar er varað við því að „leiðinlega hvasst“ geti orðið Suðaustanlands, frá Skeiðarársandi austur fyrir Berufjörð milli klukkan 15 og 21 í kvöld. 


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert