„Skurðir og mar. Já, og einnig beinbrot.“ Þessu svarar Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum, spurður hvort á spítalann leiti fólk sem slasist á rafhlaupahjólum og um hvernig slys sé að ræða. Hann bætir við að ekki sé um mjög alvarleg slys að ræða.
Jón Magnús hefur fylgst með umræðunni í Danmörku þar sem nú er lagt til að tekin verði upp hjálmaskylda og hraðatakmarkanir á hlaupahjólin, en þar í landi hafa orðið nokkur alvarleg slys á þeim. Í dag fundar samgönguráðherra Danmerkur um málið með fulltrúum sveitarfélaganna.
„Við höfum séð fáein slys,“ segir Jón sem segir að fjöldi þessara slysa hafi ekki verið tekinn sérstaklega saman í skrám spítalans. Hann segist sammála þeim dönsku kollegum sínum sem hann hefur rætt við um að setja þurfi reglur um rafhlaupahjól.
„Að mínu mati ættu að gilda sömu reglur um þessi hjól og önnur farartæki í umferðinni sem komast jafn hratt, eins og t.d. rafmagnsvespur og mér finnst fyllsta tilefni til að fylgjast betur með þessu. Við hvetjum eindregið til að notaðir séu hjálmar á þessum farartækjum og að sjálfsögðu er það skylda fyrir börn,“ segir Jón Magnús.