Framkvæmdirnar „óskiljanlegt klúður“

Framkvæmdir hafa staðið yfir á neðri hluta Hverfisgötu frá 20. …
Framkvæmdir hafa staðið yfir á neðri hluta Hverfisgötu frá 20. maí. mbl.is/Hallur Már

Hvernig hægt er að klúðra þessu verki svona ofboðslega er óskiljanlegt,“ skrifar Ásmundur Helgason, eigandi veitingastaðarins Gráta kattarins, um framkvæmdir á Hverfisgötu. Ásmundur fer hörðum orðum um tafir sem hafa orðið á framkvæmdunum í færslu sem hann birtir á Facebook.

En áhrifin eru ekki óskiljanleg. Fjórir veitingastaðir farnir á hausinn við þennan spotta Hverfisgötunnar og staðurinn okkar Ellu, Grái kötturinn, rétt lafir. Uppsafnaður taprekstur frá því í sumar eykst með hverri vikunni, með hverri vikunni sem verkið tefst,“ skrifar Ásmundur.

Engar tímasetningar hafa staðist

Hann rifjar upp að upphaflega stóð til að endurbótum Hverfisgötu myndi ljúka fyrir menningarnótt en þær hófust 20. maí. Borgarstjóri hafi í ágúst sagt að verkinu lyki í september og síðan hafi Ásmundur fengið upplýsingar frá borginni í september þess efnis að framkvæmdum myndi ljúka í október. Ekkert af þessu hafi staðist.

Hvernig má það vera að verkkaupinn hefur í raun enga hugmynd um hversu langan tíma tekur að klára svona verk? Verkhlutar sem eiga að gerast í „næstu viku“, gerast þrem til fjórum vikum síðar. Allar upplýsingar um tíma hafa reynst rangar. Líka þær um hvað átti að gerast eftir hádegið í gær. Þá átti að byrja að helluleggja norðan megin - en ekkert gerðist,“ skrifar Ásmundur.

Ásmundur segir verktaka ekki vanda sig við að greiða aðgang að þeim stöðum sem er á vinnusvæðinu og bendir á að eigendur Gráa kattarins þurfi sjálfir að færa grindverk um helgar til að komast á staðinn.

Ásmundur Helgason.
Ásmundur Helgason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir að Sigurbjörg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, hafi ekki svarað tölvupóstum og firri sig þannig allri ábyrgð. Ásmundur ávarpar hana beint og spyr hvort borgin hafi tekið afstöðu til þess að greiða þeim bætur vegna mikilla tafa sem orðið hafa við framkvæmdir á neðri hluta Hverfisgötu.

Hlýtur að kalla á tafabætur

Þetta klúður hlýtur að kalla á tafabætur til handa borginni frá verktaka og ég spyr, hver fær þær bætur? Hefur borgin orðið fyrir skaða vegna tafa á verkinu? Svarið er líklega nei, en við sem rekum lítil fyrirtæki við götuna höfum orðið fyrir miklu tjóni,“ skrifar Ásmundur.

Hann segir að verið sé að færa neðri hluta Hverfisgötu í sama búning og efri hluta, þannig að allir verkþættir ættu að þekkjast. Því skilji hann ekki allar þessar tafir. Grái kötturinn sé áfram opinn og þangað séu allir velkomnir, sem komast. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert