Málflutningur í máli Áslaugar Thelmu Einarsdóttur gegn Orku náttúrunnar (ON) hefst í kringum næstu páska, eða um miðjan apríl 2020. Fyrsta fyrirtaka í málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Áslaug Thelma, sem er fyrrverandi starfsmaður ON, lagði fram stefnu á hendur fyrirtækisins í júní fyrir að hafa mismunað henni í launum á grundvelli kyns og þá krefst hún bóta fyrir ólögmæta uppsögn.
ON vísaði ásökunum Áslaugar Thelmu á bug og skilaði í síðasta mánuði inn greinargerð vegna málsins. Þar kemur ekkert nýtt fram að sögn Sigurðar G. Guðjónssonar, lögmanns Áslaugar Thelmu. ON hafnar kröfum Áslaugar Thelmu „enda voru greidd óskert laun á samningsbundum uppsagnarfresti og rétt staðið að samningi um ráðningarkjör í upphafi,“ líkt og segir í tilkynningu á vef fyrirtækisins frá því í sumar.
Áslaugu Thelmu var sagt upp störfum haustið 2018, en hún hafði gegnt stöðu forstöðumanns einstaklingsmarkaðar hjá fyrirtækinu sem er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur. Fram hefur komið í tölvupóstum milli lögmanns Áslaugar Thelmu og Helgu Jónsdóttur, sem gegndi starfi forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur á meðan uppsögnin var til umfjöllunar, að uppsögnin hafi verið vegna frammistöðuvanda.
Áslaug Thelma hefur hins vegar sagt uppsögn sína tengda samtölum við starfsmannastjóra fyrirtækisins og kvörtun vegna óviðeigandi framkomu framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, Bjarna Más Júlíussonar. Honum var vikið úr starfi tveimur dögum eftir uppsögn Áslaugar Thelmu.
Uppsögn Áslaugar Thelmu var metin lögmæt samkvæmt niðurstöðu úttektar á starfsmannamálum Orkuveitu Reykjavíkur voru kynntar í nóvember á síðasta ári. Þó var einnig komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi átt að fá skriflega skýringu á uppsögninni þegar hún átti sér stað, sem hún fékk ekki fyrr en nokkru síðar.
Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður ON, segir í samtali við mbl.is að lítið nýtt hafi komið fram í málinu við fyrirtökuna í morgun, annað en að málflutningur fari að öllum líkindum fram í apríl á næsta ári. Næsta fyrirtaka í málinu er fyrirhuguð í nóvember.