Sérfræðingar vöruðu matvælastofnun við því að hleypa orkudrykknum Moose Juice inn á íslenskan markað árið 2018, þá sérstaklega hvað varðar 500 millilítra dósir af drykknum sem ekki fást á Íslandi. Þau töldu ljóst að drykkurinn gæti haft skaðleg eitrunaráhrif á taugakerfi bæði barna og fullorðinna.
Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ingibjargar Gunnarsdóttir, prófessor við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, í erindi sem hún hélt í dag á málþingi um ungt fólk og orkudrykki.
Álitið á sérstaklega við um 500 millilítra dósir af Moose Juice en hér á landi eru eingöngu til sölu 250 millilítra dósir. Sérfræðingarnir sem að umsögninni standa eru Erna Petersen, næringarfræðingur, og Þórhallur I. Halldórsson, prófessor við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Þau töldu sölu 500 millilítra dósa ekki réttlætanlega.
Samkvæmt upplýsingum frá Þórhalli þá á svipað við um 250 millilítra dósirnar en þar sem magnið sé minna sé neyslan hættuminni. Umsókn um sölu á 500 millilítra dósum af Moose Juice var hafnað en 250 millilítra dósirnar voru leyfðar.
„Þar sem Matvælastofnun á að leiðbeina söluaðilum með skammtastærð þá slapp 250 millilítra dósin í gegn en B6 magnið er samt töluvert hátt en ekki beinlínis hættulegt ef ein dós er drukkin. Ef menn drekka tvær dósir þá fara menn yfir efri mörk EFSA vegna B-6 vítamíns.“
„Ljóst er að styrkur B6-vítamíns í tveimur skömmtum af Moose Juice sem framleiðandi tilgreinir sem hámarksskammt á dag er umfram það sem EFSA skilgreinir sem efri mörk fyrir fullorðna og enn lengra frá efti mörkum fyrir börn“, segir í umsögninni um 500 millilítra dósina.
„Það þýðir að ekki er hægt að útiloka að dagleg neysla á tveimur skömmtum til lengri [tíma] geti haft skaðleg áhrif. Þessi áhætta er til staðar fyrir bæði fullorðnar og börn.“
Í umsögninni segir enn fremur að þeir sem drekka tvær eða fleiri dósir af 500 millilítra Moose Juice daglega gætu orðið fyrir skaðlegum eitrunaráhrifum á taugakerfi. Áhrifin séu mun meiri fyrir börn en fullorðna og geta þau hugsanlega verið varanleg.
Í máli Ingibjargar kom jafnframt fram að koffínmagn í orkudrykkjum sem seldir eru hérlendis hafi vaxið gríðarlega síðan 2005. Þá var hæsta koffínmagnið í orkudrykk 176 milligrömm í hverjum lítra en nú inniheldur sá drykkur sem er með hæsta koffíninnhald og seldur er hérlendis 555 milligrömm í hverjum lítra.
Flestir orkudrykkir á íslenskum markaði í dag innihalda 320 milligrömm af koffíni í hverjum lítra.
Ingibjörg sagði einnig að orkudrykkjaneysla leiddi oft af sér aðrar óheilbrigðar neysluvenjur og því væri ástæða til að hafa áhyggjur.
„Á síðustu tveimur árum höfum við upplifað mjög hraðar breytingar í næringarumhverfi og við höfum mjög takmörkuð gögn í höndunum til að meta hættuna sem þeim fylgir.“
Fréttin hefru verið uppfærð með nánari upplýsingum um skammtastærðir.