„Það er áhyggjuefni hversu mikið eftirspurn eftir meðferð hefur aukist hjá okkur,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri SÁÁ, um aukið framboð á kókaíni hér á landi. Innflutningur efnisins hefur aukist og styrkur þess er meiri en áður. Alls eru nú um sjö hundruð manns á biðlista eftir meðferð hjá SÁÁ, hundrað fleiri en í fyrra.
„Við sjáum miklar breytingar í neyslunni hjá þeim sem koma. Það er meira um örvandi eiturlyf, fyrst og fremst kókaín, og ópíóðarnir hafa verið að aukast líka. Þá hefur líka aukist síðustu tvö til þrjú ár að fólk sé að sprauta sig með eiturlyfjum,“ segir Valgerður enn fremur.
Hún kannast vel við aukið framboð á kókaíni, neysla þess sé augljóslega orðin miklu almennari en áður.
„Fólk með kókaínfíkn keyrir sig fljótt í þrot með þeirri neyslu. Það hefur kannski verið að drekka áður en missir svo alveg tökin þegar það fer í kókaínið. Allt í einu eru komin vandamál varðandi vinnu og fjölskylduna. Þetta gerist hratt.“
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala, segir að heildarfjöldi þeirra sem leita á bráðadeild vegna neyslu hafi verið stöðugur síðustu ár. „Í byrjun árs 2018 sáum við mikið af komum vegna sterkra verkalyfja, ópíóða. Núna sjáum við fleiri komur vegna kókaíns,“ segir hann í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.