„Stefnan er tilbúin“

Frá endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins við Hæstarétt í fyrra.
Frá endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins við Hæstarétt í fyrra. mbl.is/Hari

„Ég er klár með stefnuna, stefna er tilbúin og allt er klárt en við ætlum að gefa ríkinu smá svigrúm til að borga það sem ríkið telur vera rétt,“ segir Arnar Þór Stefánsson lögmaður Kristjáns Viðar Júlíussonar um stöðuna í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í samtali við mbl.is.

Kristján Viðar sat í fangelsi í sjö og hálft ár og var sekur maður að ósekju í tæp 40 ár þangað til hann var sýknaður í Hæstarétti á síðasta ári.

„Í rauninni þá er bara beðið eftir því að Alþingi klári þetta frumvarp en það er ekki þannig að við ætlum að bíða allan veturinn. Ef við sjáum þokkalegan framgang í málinu á Alþingi þá dokum við aðeins við en ef þetta fer ofan í skúffu þá bíðum við ekki endalaust,“ bætir Arnar við.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði í lok september fram frumvarp um sanngirnisbætur til þeirra aðila sem voru dæmdir fyrir aðild sína að Guðmundar- og Geirfinnsmálinu á sínum tíma en svo sýknaðir í Hæstarétti 27. september á síðasta ári. Það frumvarp er nú í umsagnarferli allsherjar- og menntamálanefndar og rennur umsagnarfrestur út í lok októbermánaðar.

Tvær umsagnir hafa verið sendar inn vegna frumvarpsins og eru þær frá Arnari Þór Stefánssyni annars vegar og Ragnari Aðalsteinssyni, lögmanni Guðjóns Skarphéðinssonar, hins vegar.

Bíða og sjá hvað Alþingi gerir

Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður dánarbús Tryggva Rúnars Leifssonar, segir sömu stöðu vera hjá fjölskyldu og eftirlifendum Tryggva.

„Við erum tilbúin og stefnan er tilbúin. Það er ekkert því til fyrirstöðu að stefna í málinu en eðlilega viljum við bíða og sjá hvað Alþingi gerir. Það væri ákveðið frumhlaup að fara af stað núna þegar málið er komið á einhvern rekspöl,“  segir Páll Rúnar í samtali við mbl.is.

Kristján Viðar krefst 1,6 milljarða króna í bætur og dánarbú Tryggva Rúnar rúmlega eins milljarðs króna.

Guðjón Ólafur Jónsson lögmaður Alberts Klahn Skaftasonar segir að þeir bíði sömuleiðis eftir því hvernig Alþingi meðhöndlar frumvarp um sanngirnisbætur. Krafa hans er sögð vera rúmlega 100 milljónir króna.

Aðeins einn hinna sýknuðu stefnt ríkinu

Guðjón Skarphéðinsson og lögmaður hans, Ragnar Aðalsteinsson, hafa stefnt ríkinu til greiðslu bóta en eins og áður hefur komið fram hafnaði ríkislögmaður bótakröfunni sem hljóðaði upp á 1,3 milljarða króna.

Hvorki náðist í Oddgeir Einarsson lögmann dóttur Sævars Marinós Ciesi­elski né Ragnar Aðalsteinsson við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert