Blöskrar afbökun á tilgangi frístundakorts

Kolbrún segir að þó að vissulega fari fram metnaðarfullt starf …
Kolbrún segir að þó að vissulega fari fram metnaðarfullt starf á frístundaheimilum borgarinnar séu þau ekki það sama og íþrótta- og tómstundanám, heldur fremur nauðsyn svo foreldrar geti unnið úti. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Borgarfulltrúa Flokks fólksins blöskrar afbökunin á markmiði og tilgangi frístundakortsins. Það hefur verið komið aftan að foreldrum og brotið á rétti barna.“

Þetta kemur fram í bókun sem Kolbrún Baldursdóttir lagði fram á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar í dag. Þar kemur fram að á árinu 2018 hafi frístundastyrkur, sem nemur 50 þúsund krónum á barn, verið nýttur til að greiða fyrir dvöl 1.503 barna á frístundaheimili, eða í tilfelli 23,9% allra barna í 1.—4. bekk í grunnskólum Reykjavíkur.

Kolbrún segir að þarna sé um að ræða 75 milljónir sem séu fjármagn sem ætlað sé börnum til að iðka tómstundir óháð efnahag foreldra og að þó að vissulega fari fram metnaðarfullt starf á frístundaheimilum borgarinnar séu þau ekki það sama og íþrótta- og tómstundanám, heldur fremur nauðsyn svo foreldrar geti unnið úti.

Fólk verði upplýst um aðra fjárhagsaðstoð vegna frístundar

Þá hefur Kolbrún lagt fyrirspurn fyrir velferðarráð þar sem spurt er ekki þurfi að gera meira til að upplýsa fólk um að hægt sé að sækja um styrk á grundvelli 16. gr. a í reglum um fjárhagsaðstoð, t.d. til þess að þurfa ekki að nota frístundarkortið sem gjaldmiðil til að greiða gjald frístundaheimilis.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.

Þessum reglum þarf að breyta aftur til upprunans, en árið 2009 var opnað fyrir að hægt væri að greiða frístundaheimili með kortinu að frumkvæði VG. Sú ákvörðun gengur í berhögg við markmið og tilgang frístundarkortsins,“ segir Kolbrún.

Kolbrún vekur jafnframt athygli á málinu í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar segir hún það gefa augaleið að ef foreldrar þurfi, vegna fjárhagserfiðleika, að nota frístundakortið til að greiða fyrir frístundaheimili sé réttur barnsins til nýtingar þess í íþrótta- og tómstundastarf ekki nýttur.

Borgarfulltrúi hefur sérstakar áhyggjur af stöðu barna og unglinga í hverfi 111 þar sem nýting frístundakortsins í þeim tilgangi sem því er ætlað sé minnst, eða aðeins 66% hjá stúlkum og 69% hjá drengjum. „Þar búa margar efnalitlar fjölskyldur. Sterkar vísbendingar eru um að ástæðan fyrir lakari nýtingu frístundakortsins þar er m.a. sú að foreldrar hafa vegna bágborins efnahags orðið að nota kortið allt eða hluta þess til að greiða dvöl barns á frístundaheimili.“

Mörgum ógerningur að borga mismun fyrir lengri námskeið

En notkun frístundakortsins til þess að greiða fyrir frístundaheimili er ekki það eina sem Kolbrún telur ganga gegn tilgangi frístundakortsins, því nýting kortsins hafi einnig verið gerð að skilyrði fyrir umsókn um fjárhagsaðstoð og umsókn um skuldaskjól og afskriftir skulda hjá Reykjavíkurborg, auk þess sem reglur um notkun þess séu strangar og ósveigjanlegar.

Skilyrði fyrir að nota frístundakortið sé að námskeið séu minnst tíu vikur. Slík námskeið kosti án efa mun meira en 50.000 krónur og aðeins þeir foreldrar sem geti greitt mismuninn geti leyft börnum sínum að taka þátt í lengri og dýrari námskeiðum og börn efnalítilla foreldra séu þannig útilokuð.

Kolbrún segir að aðeins þeir foreldrar sem geti greitt mismuninn …
Kolbrún segir að aðeins þeir foreldrar sem geti greitt mismuninn geti leyft börnum sínum að taka þátt í lengri og dýrari námskeiðum og börn efnalítilla foreldra séu þannig útilokuð. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Engar undantekningar eru gerðar ef barnið vill fara á styttri og þar með oft kostnaðarminni námskeið. Svo langt er gengið í ósveigjanleikanum að ekki einu sinni er hægt að nota kortið á sumarnámskeið þar sem þau námskeið ná aldrei 10 vikna lengd.“

„Fyrir barn fátækra foreldra getur ein vika, jafnvel einn dagur, í félagslegum samskiptum skipt miklu máli. Ef foreldrar hafa ekki ráð á að greiða heildarkostnaðinn fyrir 10 vikna námskeið hvernig samræmist það þá yfirlýstum markmiðum um frístundakortið? Í hverju felst jöfnuðurinn?“ spyr Kolbrún, sem hefur lagt fram tillögu þess efnis að borgarstjórn samþykki að frístundakortið verði einungis notað í samræmi við skilgreint markmið þess og tilgang.

Tillögunni var vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs á fundi borgarstjórnar 1. október síðastliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert