„Ég er í varðhaldi með fjórar löggur yfir mér þannig að ég veit ekki hvað ég má tala lengi,“ segir Björk Vilhelmsdóttir þegar hún svarar símtali blaðamanns.
Björk er í hópi fjögurra kvenna sem voru handteknar á Vesturbakkanum í Palestínu í morgun þar sem þær voru við ólífutínslu. Tinna Eyberg Örlygsdóttir var einnig handtekin ásamt tveimur frönskum konum en allar eru þær sjálfboðaliðar á vegum alþjóðlegrar friðarþjónustu kvenna (IWPS).
Björk og Tinna hafa verið í Palestínu í þrjár vikur og eru að veita verndandi viðveru og aðstoða við ólífuuppskeru sem er megintekjulind palestínskra bænda.
„Við vorum að tína ólífur uppi í fjallshlíð með tveimur bændum sem höfðu einmitt leyfi í dag til að tína. Fyrst kom ógnandi landtökumaður og við létum eins og ekkert væri og héldum áfram að tína,“ segir Björk. Fljótlega hætti þeim samt að lítast á blikuna þar sem ísraelski herinn mætti og stuttu seinna tók landtökumaðurinn upp símann.
„Við vorum svolítið hræddar, hvort hann væri að kalla á fleira landtökufólk, en svo kemur herinn og segir okkur að við verðum að fara þar sem við erum á lokuðu hernaðarlegu svæði. Við höfðum engar forsendur til þess að vita það og báðum um sönnun og var þá sýnt blað á hebresku,“ segir Björk.
Björk og samferðakonur hennar voru þá beðnar um vegabréf sem þær voru ekki með á sér. „Þá vorum við handteknar og farið með okkur upp í bíl. Við erum friðarþjónusta og megum ekki beita neinu ofbeldi. Þeir voru 12 og við fjórar, við vorum ekkert að fara að slást við þessa hermenn og lögreglu.“
Átökin á svæðinu hafa verið að magnast síðustu daga. Í síðustu viku var Björk við tínslu nálægt landtökubyggðinni Yitzhar þegar kveikt var í uppskerunni. „Þeir réðust á fólkið sem var næsti hópur við okkur og slösuðu sjö aðila, meðal annars alþjóðlega sjálfboðaliða. Það er kannski það svakalegasta sem maður hefur upplifað því þá áttar maður sig á því að þeim er alveg sama um líf og limi allra þeirra sem þarna eru, þeir ætla sér að ná þessari hæð til að stækka sínar landtökubyggðir,“ segir Björk.
Björk, Tinna og frönsku konurnar tvær bíða nú eftir því á skrifstofu lögreglunnar í landtökubyggðinni Ariel að verða yfirheyrðar. Björk á ekki von á því að þeim verði vísað úr landi. „Við erum algjörlega pollrólegar af því að við höfum ekkert gert annað en að tína ólífur með bónda sem hefur leyfi og fylgjum öllum fyrirskipunum því það er okkar markmið að koma í veg fyrir vanda,“ segir hún.
Björk segir það vissulega sérstaka tilfinningu að vera í varðhaldi en það fari ágætlega um þær. „Við erum svo heppnar við Tinna að frönsku konurnar voru með súkkulaði í bakpokanum þannig að við höfum það í rauninni mjög gott,“ segir hún.
Borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins hefur verið gert kunnugt um handtökuna og mun aðstoða Björk og Tinnu eftir bestu getu, samkvæmt upplýsingum frá Sveini H. Guðmarssyni, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins.