Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt er úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 22. ágúst um að veita framkvæmdaleyfi til að lengja frárein og breikka rampinn við Bústaðaveg sem liggur niður að Kringlumýrarbraut.
Nefndin komst að niðustöðu í gær.
Gögn málsins bárust útskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. október en eigendur Birkihlíðar 42, 44, og 48 kærðu ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis. Þess var krafist að ákvörðun yrði felld úr gildi og framkvæmdir stöðvaðar.
Fram kemur í málavöxtum að framkvæmdaleyfi Vegagerðarinnar hafi verið samþykkt 16. ágúst.
Kærendur bentu á að með verkinu færist umferð á Bústaðavegi nær íbúðahverfi með neikvæðum áhrifum á hljóðvist, loftgæði og önnur lífsgæði íbúa í hverfinu. Ekki hafi farið fram grenndarkynning á fyrirhugaðri framkvæmd.
Kærendum hafi ekki verið kunnugt um að til stæði að breikka götuna fyrr en eftir að framkvæmdir hófust.
Fram kom í málsrökum Reykjavíkurborgar að um minni háttar breytingar væri að ræða og því hafi ekki verið þörf á sérstakri grenndarkynningu vegna verksins. Íbúar í þéttbýli geti ávallt vænst þess að endurbætur verði gerðar á götum og vegum til að bæta umferð og tryggja öryggi almennings.
Enn fremur kom fram í rökum Vegagerðarinnar að ekki komi fram með hvaða hætti kærendur eigi hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Ekki sé nægilegt að um íbúa í Suðurhlíðum Reykjavíkur sé að ræða. Vegagerðin benti á að framkvæmdasvæði sé utan lóðamarka húseigna við Birkihlíð.
Fram kemur í niðurstöðu nefndarinnar að framkvæmdirnar gætu haft áhrif á íbúana sem kærðu. Auk þess hafi átt að grenndarkynna hinar umdeildu framkvæmdir, sem ekki var gert. Í ljósi þess að það var ekki gert verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.