Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann ítrekar þá skoðun sína, sem fram kom í viðtali við mbl.is um síðustu helgi, að ófjármagnaðar launagreiðslur utan áætlana í fjárlögum ársins og fjárlagaheimilda Landspítala hafi komið í bakið á yfirstjórn sjúkrahússins. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, vísaði gagnrýni Reynis á bug í kastljósviðtali í vikunni.
Reynir segir að í ljós hafi komið að engar áætlanir hafi verið um hvernig ætti að fjármagna pakkann sem kominn hafi verið í tæpar þúsund miljónir króna umfram heimildir þegar gripið hafi verið inn í. „Niðurstaðan í dag sé sú að forstjóri sjúkrahússins hefur kynnt að skera þurfi niður verkefni og þjónustu þess um tæpan miljarð á yfirstandandi ári eða um svipaða fjárhæð og umræddar aukagreiðslur utan fjárlaga ársins hafi numið. Um framangreint tala staðreyndir skýru máli.“
Til að mæta framúrkeyrslu ársins hafi ríflega 40 niðurskurðarliðir verið kynntir til leiks. „Ljóst er að svo víðtækur niðurskurður mun víða hafa áhrif í starfsemi sjúkrahússins, m.a. mögulega breytingar á vaktþjónustu lækna. Viðbrögð formanna læknaráðs, hjúkrunarráðs og annarra sem hafa tjáð sig um niðurskurðaráformin eru samhljóma í því mati að þær muni óhjákvæmilega bitna á þjónustu við sjúklinga. Einnig að þær séu til þess fallnar að geta mögulega skert öryggi þeirra sem leita til sjúkrahússins. Það er grafalvarlegt og má ekki gerast.“
Reynir segist taka undir þessar áhyggjur sem formaður Læknafélags Íslands. Nauðsynlegt sé að skoða umræddar niðurskurðarfyrirætlanir yfirstjórnar Landspítala í þessu samhengi. „Það er einnig óhjákvæmilegt að gefa því gaum að aðrar starfsstéttir en þær sem fengu launaumbun umfram það sem fjárlög og gildandi launviðmið hins opinbera gerðu ráð fyrir í fjárlögum ársins, s.s. lífeindafræðingar, sjúkraliðar og geislafræðingar, hafa einnig verið undir miklu álagi. Gæta þarf jafnræðis við umframgreiðslur launa vegna slíkra aðstæðna en það hefur Landspítalinn ekki gert,“ segir hann ennfremur.
„Ég tek jafnframt undir áhyggjur formanna fagráða Landspítalans um að gæta þurfi þess við ákvarðanir um niðurskurð í rekstrarútgjöldum sjúkrahússins að þær bitni ekki á öryggi þeirra sem þangað leita. Varðandi jafnlaunavottunarferli Landspítalans vil ég að gefnu tilefni benda á að málið snýst ekki um á hversu mörgum tugum eða hundruðum miljóna kostnaður við innleiðingu breska starfsmatskerfisins hleypur á. Miklu frekar, og raunar eingöngu, snýst það um faglegan trúverðugleika yfirstjórnar sjúkrahússins.“
Við forprófanir hafi komið í ljós að starfsmatskerfið tæki hvorki tillit til þeirra frumkrafna, s.s. menntunar og sérfræðiþjálfunar, sem gerðar væru til læknisstarfsins né legði kerfið mat á eðli og inntak læknisstarfsins með eðlilegum hætti. Þess væri heldur ekki að vænta því læknar væru ekki hluti af þessu kerfi. Læknar hafi einfaldlega verið teknir út úr menginu. Svokölluð aðlögun og íslensk staðfæring breska kerfisins til að meta störf lækna í jafnlaunaferlinu hafi mistekist hrapalega í höndum Landspítalans.
„Þrátt fyrir þetta stefnir yfirstjórn spítalans á að grundvalla jafnlaunavottun sína á þessu kerfi sem er með innbyggðum villum varðandi mat á störfum lækna. Slíkum ófaglegum vinnubrögðum og ákvörðunum verður staðfastlega að mótmæla.“