Íslenskir sjálfboðaliðar handteknir í Palestínu

Björk í her- og lögreglufylgd af einum ólífuakrinum í síðustu …
Björk í her- og lögreglufylgd af einum ólífuakrinum í síðustu viku. Í morgun var hún handtekin ásamt Tinnu Eyberg og fjórum öðrum sjálfboðaliðum á vegum alþjóðlegrar friðarþjónustu kvenna. Ljósmynd/Facebook

Björk Vilhelmsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, og Tinna Eyberg voru handteknar ásamt tveimur frönskum konum í Palestínu í morgun þar sem þær voru við ólífutínslu, en þær eru allar sjálfboðaliðar á vegum alþjóðlegrar friðarþjónustu kvenna.

Sveinn Rúnar Hauksson, eiginmaður Bjarkar, greinir frá handtökunni á Facebook-síðu sinni. Björk og Tinna voru handteknar sem fyrr segir og fluttar á lögreglustöð eða eins konar herstöð í landtökubyggðinni Ariel. 

Björk og Tinna hafa verið í Palestínu í þrjár vikur og eru að veita verndandi viðveru og aðstoða við ólífuuppskeru sem er megintekjulind palestínskra bænda. Þetta er fjórða haustið í röð sem Björk fer til Palestínu á vegum samtakanna, en það hefur hún iðulega gert síðan hún hætti afskiptum af pólitík fyrir fjórum árum. 

„Það má alltaf eiga von á svona handtökum því herinn er í næsta nágrenni og hefur bannað þeim að koma inn á svæðið,“ segir Sveinn í samtali við mbl.is. Hann náði tali af Björk rétt áðan og segir að þær bíði nú eftir að vera yfirheyrðar. 

Sveinn segir mesta áhyggjuefnið hvort þeim verði vísað úr landi. Dæmi eru um að konum sem gegnt hafa sjálfboðaliðastarfi fyrir samtökin hafi verið vísað úr landinu og þá er þeim meinaður aðgangur í allt að tíu ár. 

Borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins hefur verið gert kunnugt um handtökuna og mun aðstoða Björk og Tinnu eftir bestu getu, samkvæmt upplýsingum frá Sveini H. Guðmarssyni, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert