Ofkælingartilfellum og tilfellum þar sem fólk örmagnast í sjónum við Nauthólsvík hefur fjölgað hratt síðustu tvær vikur. Mest hafa fjórir sjósundskappar örmagnast á dag síðustu daga að sögn Óttars Hrafnkelssonar, deildarstjóra Ylstrandarinnar í Nauthólsvík. Í sumum tilvikum hefur starfsfólk Ylstrandarinnar þurft að kalla til sjúkrabíl sökum ofkælingar eða þegar fólk örmagnast á sundi eða að því loknu.
„Það er ekkert að því að fara í sjóinn um hávetur og í snarvitlausu veðri ef út í það er farið, en það skiptir máli hvernig það er gert,“ segir Óttarr í samtali við mbl.is.
Sjórinn er að kólna hratt þessa dagana og segir Óttarr ekki alla gera sér grein fyrir því. „Í gær var gott veður en skítakuldi, sjávarhiti 4 gráður og vindkælingin -13 gráður. Fólk þarf því að fara varlega“
Athygli er vakin á auknum tilfellum ofkælinga á Facebook-síðu Ylstrandarinnar í Nauthólsvík og eru gestir beðnir um að fara varlega og að vera ekki að ofkæla sig eða ofreyna sig með tilheyrandi álagi á starfsfólk og starfsemi.
„Álagið á starfsfólkið og starfsemina í tengslum við ofkælingu og örmögnun má ekki verða svona umfangsmikið eins og raun ber vitni,“ segir meðal annars í færslunni.
„Þetta er ekki sjúkrastofnun. Þetta er bara baðstaður og starfsfólkið er ráðið til að sinna eftirliti, þrifum og afgreiðslu. En við erum ekki lífverðir,“ segir Óttarr. Hann segir tilgang færslunnar alls ekki vera að skapa leiðindi. „En ég var heldur ekki að reyna að vera fyndinn. En þetta er samt fúlasta alvara.“
„Þeir gestir Ylstrandarinnar sem hafa hugsað sér að „kæla sig mikið“, „vera lengi ofan í sjónum“, „taka svoldið hressilega á því“, „bara synda út að kaðli“ eða að „hressa sig við eftir veikindi“ eru vinsamlega beðnir um að panta sér sjúkrabíl áður en þeir fara í sjóinn, þá mun sérhæfð aðhlynning bíða eftir viðkomandi aðilum þegar þeir koma úr sjónum,“ segir meðal annars í færslunni, sem einhverjir gætu tekið að léttúð, en Óttarr vill einfaldlega benda á að starfsfólk Ylstrandarinnar er ekki í stakk búið til að hlúa að sundfólki sem hefur ofkælst eða örmagnast.
„Starfsfólk mun að sjálfsögðu ávallt gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma fólki til bjargar en það eru vissulega takmörk fyrir því hvað hægt er að gera,“ segir enn fremur í færslunni.
Óttarr segir ástæðu þess að fólk örmagnist eða ofkælist yfirleitt einfalda: Fólk er of lengi ofan í. Þá skipti einnig máli að fólk sé vel nært og úthvílt þegar það stingur sér í sjóinn.
„Ef fólk er illa sofið eða er ekki búið að borða getur það farið illa með fólk. Hausinn þarf að vera tilbúinn og líkaminn líka. Fólk getur alveg komið og synt í sjónum ef það er kalt úti, það þarf bara að fara varlega,“ segir Óttarr.