Herferð knúin með „heift og hefnigirni“

Sólveig Anna Jónsdóttir var viðstödd þing Starfsgreinasambandsins sem sett var …
Sólveig Anna Jónsdóttir var viðstödd þing Starfsgreinasambandsins sem sett var í morgun. Haraldur Jónasson/Hari

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir áskorun fjögurra fyrrverandi og núverandi starfsmanna Eflingar hluta af herferð fyrrverandi skrifstofustjóra gegn sér. Hann hafi ekki getað sætt sig við valdaskipti í félaginu þegar Sólveig tók við í fyrra. 

Áskorunin var send þingi Starfsgreinasambandsins í gær. Þar var beðið um að meðferð Eflingar á starfsmönnum sínum yrði tekin til umræðu á þinginu. 

Sólveig vísar ásökunum um einelti og ólíðandi framkomu á bug og spyr hvort fyrrverandi skrifstofustjóri geti ekki bara farið í golf. Að áskoruninni stóðu Þráinn Hallgrímsson, fyrrverandi skrifstofustjóri Eflingar, Anna Lisa Terrazas, Elín Hanna Kjartansdóttir og Kristjana Valgeirsdóttir.

„Ég ætla ekki að hafa mörg orð um aðra en fyrrverandi skrifstofustjóra Eflingar, Þráin Hallgrímsson, sem hefur með framferði sínu núna síðasta ár sýnt hvaða innræti hann hefur að geyma,“ segir Sólveig.

Hún telur að Þráinn viti hvað sé satt og hvað sé logið í því sem hann hafi sett fram. „Hann verður bara að eiga það við sína eigin samvisku, hvaða framkomu hann hefur sýnt mér, hvaða ósannindi og hvaða óhróður hann getur lifað með að fara fram með í fjölmiðlum.“

Geti ekki sætt sig við ófaglærða láglaunakonu

Sólveig segir að herferð Þráins gegn sér hafi hafist fyrir ári. Herferðin sé knúin áfram af heift og hefnigirni.

„Hann gat ekki sætt sig við þau valdaskipti sem urðu í félaginu. Hann getur ekki sætt sig við það að ófaglærð láglaunakona hafi tekið stólinn sem hann og fyrrverandi formaður voru búnir að úthluta til mannsins sem þeir höfðu handvalið til þess að stýra félaginu mögulega þá næstu átján ár. Að mínu mati snýst þetta einfaldlega um það þegar kemur að honum.“

Sólveig Anna hefur verið áberandi síðan hún tók við formannsembættinu.
Sólveig Anna hefur verið áberandi síðan hún tók við formannsembættinu. mbl.is/Hari

Sólveig vonar að Þráinn fari að finna frið „og geti farið að snúa sér að öðrum áhugamálum. Hann hefur verið hálaunamaður árum saman. Hann gæti mögulega farið að spila golf eins og ríkir karlar á hans aldri gera“.

Segir glæp sinn að hafa sigrað

Sólveig segir að hennar sök í málinu sé einföld. „Glæpur minn er að hafa sigrað í formannskjöri Eflingar, því fyrsta sem var haldið í átján ár, með 80% greiddra atkvæða. Auðvitað þarf þessi hálaunakarl að reyna að refsa mér stórkostlega fyrir þennan grimmilega glæp.“

Í dag er kvennafrídagurinn og segir Sólveig kaldhæðnislegt að einmitt þessa umræðu beri upp á þeim degi. 

„Það er sorglegt að hugsa til þess að þessi maður geti ekki sætt sig við það að þetta félag sé leitt af tveimur konum, annars vegar mér og svo henni Agnieszku Ewu varaformanni. Svona virðist þetta vera stundum, það virðist vera erfitt fyrir gömlu karlana að sætta sig við breytingarnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert