Talsverða athygli vakti þegar fimm útkallsbílum lögreglu var lagt á göngusvæði á Lækjartorgi, utan við inngang Héraðsdóms Reykjavíkur, í gærmorgun.
„Óheppilegt“ svaraði lögreglumaður sem Morgunblaðið ræddi við þegar sá var spurður út í lagningu neyðarbílanna.
Líkt og fram kom á mbl.is í gær fjölmenntu einkennisklæddir lögreglumenn í dómsal héraðsdóms til að hlýða á dómsuppkvaðningu í máli lögreglumanns sem ákærður var fyrir að hafa ekki gætt lögmætra aðferða við eftirför í fyrra. Á meðan biðu lögreglubílarnir fimm fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur.
Um þrjátíu til fjörutíu lögreglumenn, flestir einkennisklæddir og margir úr starfsliði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, mættu í dómsalinn. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir marga þeirra hafa verið á vakt. Hún gerir þó ekki athugasemd við mætinguna.