Lögreglunni á Norðurlandi vestra barst tilkynning um bíl sem hafnaði utan vegar á þjóðveginum um Langadal í kvöld. Engin meiðsl urðu á ökumanni eða farþegum en útskýringar ökumanns á hvað varð til þess að bíllinn fór út af vakti kátínu hjá lögreglu sem segir frá málsatvikum á Facebook-síðu lögreglunnar.
Bíll ferðalanganna, sem eru erlendir ferðamenn, var dreginn upp á veg með dráttarbifreið og gátu þeir þá haldið áfram ferð sinni en bifreiðin var lítið skemmd.
Gaf ökumaður þá skýringu að fyrir bifreið hans hefði hlaupið „arctic fox“ eða heimskautarefur og hann fipast við það.
Afspyrnuslæmt veður er í umdæminu, blint og mikill skafrenningur en engin alvarleg óhöpp hafa verið í umferðinni að því er segir í tilkynningu lögreglu.