Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi félags- og jafnréttismálaráðherra, segir ummæli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um fyrirætlanir Íslandsbanka um að hætta viðskiptum við fjölmiðla sem ekki standist tiltekin skilyrði um kynjahlutföll lýsa áhugaverðu sjónarmiði.
Af fyrri ummælum Bjarna um ákvarðanir bankanna hafi mátt ráða að þær væru ráðherra óviðkomandi.
„Hann hefur áður lýst þeirri skoðun sinni að bygging nýrra höfuðstöðva Landsbankans á einni dýrustu lóð landsins sé ráðherra óviðkomandi þar sem um rekstrarlega ákvörðun sé að ræða,“ skrifar Þorsteinn á Facebook-síðu sinni.
„En þegar ríkisfyrirtæki leggst á árarnar í jafnréttismálum er hann hugsi. Segir að þarna sé ríkisfyrirtæki auk þess að sveigja mjög frá eigendastefnu ríkisins. Það er reyndar enn áhugaverðara að heyra frá fjármálaráðherra að jafnrétti kynjanna sé ekki áherslumál í eigendastefnu ríkisins.“