Vegum lokað vegna veðurs

Ferðalangar á norðausturhluta landsins þurfa að fylgjast með vef Vegagerðarinnar …
Ferðalangar á norðausturhluta landsins þurfa að fylgjast með vef Vegagerðarinnar áður en þeir halda eitthvað út í dag. Ljósmynd/Vegagerðin

Vetrarfærð og éljagangur er víða á norðanverðu landinu en mokstur stendur yfir víðast hvar, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Greiðfært er að mestu á sunnanverðu landinu en hvasst. Launhált er á höfuðborgarsvæðinu og er söltun hafin.

Snjóþekja, hálka eða hálkublettir og éljagangur er víða á Norðurlandi. Stórhríð er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum þar sem veginum hefur verið lokað vegna veðurs og þæfingsfærð á Öxnadalsheiði. Ófært er á Hellisheiði eystri.

Snjóþekja og hálka er í Borgarfirði en hálkublettir og éljagangur á Holtavörðuheiði. Þá er töluverður vindur á Snæfellsnesi og fer hann í 28 m/s í hviðum við Hraunsmúla.

Á Vestfjörðum er víða snjóþekja, hálka eða hálkublettir á vegum og éljagangur á köflum. Þæfingur er á Steingrímsfjarðarheiði en þungfært á Þröskuldum. Ófært er norður í Árneshrepp.

Á Austurlandi er þæfingsfærð um Fjarðarheiði og Hólmaháls en mokstur stendur yfir. Þungfært er á Mjóafjarðarheiði. Greiðfært er sunnan Djúpavogs en mjög hvasst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert