Vísar ummælum Sigmundar Davíðs á bug

Edda Hermannsdóttir.
Edda Hermannsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Edda Hermannsdóttir, sam­skipta­stjóri Íslands­banka, segir að bankinn sé ekki að skipta sér af mannaráðningum fjölmiðla eða dagskrá þeirra. Ummæli þess efnis lét Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, falla vegna stefnu bankans um að hætta að auglýsa hjá karllægum fjölmiðlum. 

„Við erum náttúrulega ekki að skipta okkur af einstaka mannaráðningum. Við erum að horfa á heildar kynjahlutfall. Íslandsbanki er fyrirtæki eins og hvert annað fyrirtæki í íslensku atvinnulífi og vill eins og hvert annað fyrirtæki geta notað innkaup til þess að sýna það í verki að það standi við samfélagsábyrgð,“ segir Edda. 

Hún telur mikilvægt að stór fyrirtæki velti því fyrir sér hvert þau beini innkaupum sínum. 

Sigmundur Davíð vakti athygli á viðtali við Eddu á þingi í dag. Viðtalið birtist á Vísi í morgun og þar ræddi hún þessa stefnu bankans. Í óundirbúnum fyrirspurnartíma spurði Sigmundur Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hvort þarna væri ekki um óhugnanlega þróun að ræða. 

Horfa einungis til innkaupa

Bjarni sagðist viður­kenna að þess­ar áhersl­ur bank­ans kæmu hon­um spánskt fyr­ir sjón­ir og spurði hann hvort bankinn ætlaði einnig að beina þessu að tekjuhlið sinni. Um það segir Edda einfaldlega: „Þarna erum við bara að horfa á innkaup fyrirtækisins.“

Edda segir að hugmyndin hafi fæðst í stefnuvinnu bankans vegna markaðsstefnu hans. 

„Það hefur auðvitað verið mjög augljóst að það hefur verið kynjahalli á sumum íslenskum fjölmiðlum. Við hófum þessa umræðu, hvort við gætum ekki reynt að hafa áhrif á það að konum yrði fjölgað á þessum stöðum. Þetta er að sjálfsögðu ekki gert á einum degi. Þetta tekur tíma og við erum ekki að slökkva á öllum viðskiptum við þessa fjölmiðla. Við erum að hvetja þessi fyrirtæki að hugsa um jafnréttismál líkt og hvað annað.“

Kalla eftir upplýsingum frá fjölmiðlum

Edda segir að enn sé óljóst hvenær breytingarnar muni taka gildi. „Það er ekki komin dagsetning á það. Núna erum við í viðræðum við fjölmiðla og erum líka að safna gögnum og skoða þetta.“

Spurð hvernig Íslandsbanki ætli sér að mæla kynjahlutföll innan íslenskra fjölmiðla svarar Edda: „Við höfum verið að kalla eftir upplýsingum um fjölda þáttastjórnenda og upplýsingum frá þeim fjölmiðlum sem eru að mæla fjölda viðmælenda. Það sem skiptir okkur auðvitað mestu máli er að það sé viðleitni til jafnréttismála hjá þessum fjölmiðlum. Það er líka gott að taka fram að við erum ekki að skipta okkur af einu né neinu sem varðar ritstjórnarstefnu þessara fyrirtækja.“

Fleiri hafi gert slíkt hið sama

Íslandsbanki er ekki eina fyrirtækið sem stendur í slíkum erindum. Edda nefnir að norska fjármálafyrirtækið DNB, sem er það stærsta sinnar tegundar í Noregi og er að hluta í eigu norska ríkisins, hafi ráðist í sambærilegar aðgerðir. „Fyrirtæki eins og DNB hafa verið að gera slíkt hið sama um nokkurra ára skeið þar sem þetta snýr að lögmannsstofum, auglýsingastofum og fleira. DNB setur kröfu um að það séu konur við borðið svo það eru fleiri fyrirtæki farin að taka meiri afstöðu þegar kemur að innkaupum.“

Edda getur ekki svarað því hvernig hlutföll á milli kvenna og karla þurfi að vera innan ritstjórna fjölmiðla og viðmælenda þeirra svo Íslandsbanki haldi áfram samskiptum við miðlana. „Við erum aðallega að leitast eftir því að það sé viðleitni til þess að fjölga konum hjá þeim fjölmiðlum sem við auglýsum hjá.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert