Umhverfisráðuneytið hefur samið við Borgarbyggð um framkvæmdir við bílastæði og salernishús við fossinn Glanna og gróðurvinina Paradísarlaut í Norðurárdal í Borgarfirði.
Ríkið ver 13 milljónum kr. til verkefnisins á rúmum tveimur árum, í samræmi við landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.
Glanni er fallegur foss í Norðurá. Skammt frá er Paradísarlaut í Grábrókarhrauni, gróðurvin með vatnslindum, í landi Hreðavatns. Eru þessar náttúruminjar á jaðri svæðis á náttúruminjaskrá og vinsæll áfangastaður ferðafólks. Ferðafólki sem þangað leggur leið sína hefur fjölgað mjög á undanförnum árum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.