Guðjón Skarphéðinsson og Kristján Viðar Júlíusson, sem gert hafa kröfur á íslenska ríkið vegna áralangrar óréttmætrar frelsissviptingar sinnar, njóta gjafsóknarréttar í málum sínum og verður þóknun lögmanna þeirra því ákvörðuð og greidd af íslenska ríkinu þegar lyktir fást í málin.
Þetta segja lögmennirnir, Ragnar Aðalsteinsson og Arnar Þór Stefánsson, spurðir út í það hvernig fyrirkomulagi þóknunar fyrir störf þeirra verði háttað.
„Hann hefur lögbundna gjafsókn, eins og allir sem að verða fyrir slíkri frelsissviptingu. Þá er það bara dómstóllinn sem ákveður þóknun mína fyrir sjálft dómsmálið,“ segir Ragnar.
Í bótakröfumálum er stundum hafður sá háttur á varðandi þóknun lögmanna að þeir fái í þóknun ákveðið hlutfall af því sem skjólstæðingar þeirra fá í sinn hlut. Sú er ekki raunin í málum þeirra Guðjóns og Kristjáns Viðars, að sögn lögmanna þeirra.