Langvíur og stuttnefjur við Norður-Atlantshaf koma nú fyrr á varpstöðvarnar en þær gerðu. Flýting komutímans er rakin til hlýnunar loftslags. Þrátt fyrir að koma fyrr hafa svartfuglarnir ekki flýtt varptímanum, samkvæmt rannsókn sem tímaritið Biology Letters greindi frá í fyrradag.
Einn höfunda greinarinnar er Þorkell Lindberg Þórarinsson, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands. Hann sagði að hluti rannsóknarinnar hefði farið fram á Íslandi, aðallega á Langanesi en einnig í Grímsey. Hún var gerð á árunum 2009-2018 í 14 fuglabyggðum allt frá Færeyjum í suðri og norður á Svalbarða, en þar eru stórar stuttnefjubyggðir. Ísland kom inn nokkru eftir að rannsóknin hófst, eða árið 2014. Reiknað er með hún haldi áfram a.m.k. næstu þrjú árin.
Þorkell sagði að rannsóknin á sjófuglum á norðurslóðum væri stór. „Gögnin eru mjög umfangsmikil og ná til allra þessara fuglabyggða yfir langt tímabil. Niðurstöðurnar sýna að fuglarnir koma fyrr á varpstöðvarnar en verpa ekki fyrr á vorin en þeir gerðu,“ segir Þorkell í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.