Steinlagt torg fyrir framan Þjóðleikhúsið verður tilbúið í lok fyrstu viku nóvember og verður í framhaldinu opnað fyrir umferð um Hverfisgötu. Vinnu við frágang gangstéttar og hjólastígs að sunnanverðu meðfram Hverfisgötu á svo að ljúka um miðjan nóvember. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg, en tafir á verkinu hafa verið gagnrýndar harðlega af rekstraraðilum við götuna.
Ásmundur Helgason, eigandi veitingastaðarins Gráa kattarins, sagði meðal annars í vikunni að tafirnar væru óskiljanlegar og að engar tímasetningar hefðu staðist. Hefur hann og nokkrir aðrir rekstraraðilar skoðað hópmálsókn með það í huga að sækja tafabætur.
Í tilkynningu Reykjavíkur í dag kemur fram að um helgina verði lokið við að steinleggja torg á gatnamótum Hverfisgötu og Ingólfsstrætis. Við þann áfanga eigi að koma vel í ljós breytt ásýnd götunnar. Vikuna eftir verði svo unnið að lokafrágangi gangstéttar og hjólastígs við norðanverða Hverfisgötu við Safnahús og Þjóðleikhúsið. Síðustu framkvæmdir ná svo inn í nóvember, eins og kom fram hér að ofan.
Síðan framkvæmdir hófust í maí við götuna hafa fjórir veitingastaðir á þessum kafla lokað, meðal annars Dill, sem var eini íslenski veitingastaðurinn með Michelin-stjörnu.