Svanborg Sigmarsdóttir stjórnmálafræðingur hefur tekið til starfa sem framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Viðreisnar og verkefnastjóri sveitarstjórnarmála. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.
Svanborg hefur undanfarinn áratug starfað sem upplýsingafulltrúi opinberra stofnana, meðal annars umboðsmanns skuldara og nú síðast hjá ríkisendurskoðun. Þar áður var hún blaðamaður á Fréttablaðinu, auk þess að hafa reglulega kennt áfanga í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst.
„Hugsjónir Viðreisnar um frjálslyndi, frelsi, jafnréttismál, umhverfismál og alþjóðasamvinnu ríma vel við mína sannfæringu um gott og réttlátt samfélag. Því hlakka ég mjög til að taka þátt í starfi Viðreisnar,“ er haft eftir Svanborgu í tilkynningunni.