Víða í stærri bæjum á landsbyggðinni fara útfarir nú oftar fram á föstudögum eða öðrum virkum dögum en áður tíðkaðist. Áður var reglan sú að á höfuðborgarsvæðinu var aðeins jarðað á virkum dögum, en á landsbyggðinni langoftast á laugardögum.
Munurinn er sá að í þéttbýlinu er algengast að atvinnufólk komi að framkvæmd útfara, það er útfararstofur og söngfólk auk prests. Í dreifbýlinu eru það gjarnan sjálfboðaliðar sem gegna hlutverkum útfararstofu, annast tónlistarflutning og fleira.
Meðfylgjandi skýringarmynd byggir á tölum frá kirkjugörðunum um fjölda útfara á föstudögum og laugardögum frá 2012, þ.e. í öðrum kirkjugörðum en kirkjugörðum Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Akureyrar, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.