Fimmtán ára gamalli stúlku, sem greind er með einhverfu og hefur glímt við mikið þunglyndi, er nú kennt heima hjá sér í eina klukkustund og tuttugu mínútur á dag eftir að reynt hafði verið að kenna henni í gluggalausri kompu í skólanum fyrr í haust.
Forsaga málsins er sú að stúlkan, sem verið hefur góður námsmaður, að sögn móður hennar, á mjög erfitt uppdráttar félagslega og hefur færst milli skóla af þeim sökum. Í byrjun júní sl. fór móðirin á fund hjá skólaskrifstofu Mosfellsbæjar, þar sem fjölskyldan býr, og var þar tjáð að dóttirin þyrfti að fara aftur í Varmárskóla en hún hætti í honum eftir sjöunda bekk vegna vanlíðanar sem fyrst og fremst stafaði af einelti. „Ég sagði þeim á skólaskrifstofunni strax að hún gæti ekki verið í kringum börnin í Varmárskóla vegna þess að hún var lögð í einelti þar. Þau fullvissuðu mig hins vegar um að leitað yrði sérúrræða fyrir dóttur mína í skólanum og hún fengi að vera út af fyrir sig. Lögð var áhersla á að hún myndi ná 10. bekkjar prófunum og að skólinn myndi hitta okkur á fundi fyrir skólabyrjun og aðlaga sig hennar þörfum,“ segir móðirin sem vill ekki koma fram undir nafni af tillitssemi við dóttur sína.
Foreldrarnir óskuðu eftir sjúkrakennslu fyrir dóttur sína en við því var ekki orðið. Þegar skólaárið hófst var dóttirin látin vera í hálftíma á dag í gluggalausri kompu inn af læstri geymslu og rætt um að viðveran yrði smám saman aukin upp í þrjár klukkustundir á dag, frá kl. 9 til 12. „Hinn 17. september var stór fundur á BUGL, með skólastjóra og kennurum, skólaskrifstofu, félagsþjónustu og okkur foreldrunum. Þar fór læknirinn fram á sjúkrakennslu fyrir dóttur mína en skólastjórinn hafnaði því,“ segir móðirin sem hélt áfram að óska eftir því að viðveran yrði lengd upp í þrjár klukkustundir á dag. Fékk hún þau svör frá skólanum að það væri ekki hægt nema að fenginni aukafjárveitingu. Það mál þyrfti að ræða við skólaskrifstofu bæjarins.
Hinn 1. október sárnaði dótturinni framkoma eins kennarans í kompunni og neitaði hún daginn eftir að fara í skólann. „3. október var ég boðuð á fund hjá skólaskrifstofunni, þar var skólastjórinn og tvær konur frá skólaskrifstofunni. Á þessum fundi var endurtekið að dóttir mín ætti ekki að fá neitt meira, fullyrt að hún ætti ekki rétt á sjúkrakennslu og líka að hún mætti ekki skipta um skóla. Talað var niður til mín allan tímann og að endingu sleit ég fundinum og bað skólastjórann um að senda mér móttökuáætlun dóttur minnar sem skólanum bar að gera en gerði ekki.“
Hinn 11. október barst móðurinni tölvupóstur frá skólastjóranum þar sem henni var tilkynnt að dóttir hennar ætti að fá heimakennslu frá og með 15. október. Kennari myndi kenna henni í eina klukkustund og tuttugu mínútur á dag en aðeins íslensku og ensku. Ekkert er um stærðfræðikennslu. Kennarinn hefur mætt síðan og gengið ágætlega, að sögn móðurinnar. Móðirin hefur þó litla trú á því að þetta fyrirkomulag muni nægja til að dóttir hennar nái prófum í vor. „Skólastjórinn er sem sagt búinn að ákveða að veita eins litla kennslu og hægt er og sleppa stærðfræðinni, og þar með mun hún ekki ná 10. bekkjar prófi, skólayfirvöld Mosfellsbæjar eru búin að ákveða þetta, þau eru vísvitandi að eyðileggja nám hennar og framtíðarmöguleika.“
Móðirin segir ekki við starfsfólk skólans að sakast; það sé sett í erfiða aðstöðu. „Málið snýst um vanhæfni skólastjórans og skólaskrifstofunnar sem hefur haldið mjög illa á þessu máli. Ekkert af því sem okkur var lofað í júní hefur staðist og eins og staðan er núna þá hefur skólastjórinn svipt dóttur mína möguleikanum á því að ná 10. bekkjar prófunum í vor. Hvernig getur skólastjóri haft slíkt alræðisvald?“ spyr móðirin og bætir við: „Markmið skólastjórans er ekki að hún klári 10. bekk heldur bara að hafa hana þarna.“
Móðirin gagnrýnir einnig hversu lítið samráð hafi verið haft við foreldra barnsins og lækna. „Við höfum rætt við réttindagæslumann og íhugað að kæra málið en er tjáð að það ferli geti tekið marga mánuði og þann tíma hefur dóttir mín ekki. Haustönnin er þegar hálfnuð. Á meðan þarf skólinn ekki að sæta neinni ábyrgð; það eru engin viðurlög, hvorki fyrir skólann né skólastjórann.“
Spurð um líðan dótturinnar svarar móðirin: „Hún var þunglynd í allt sumar og gat ekki unnið; var bara með okkur foreldrunum. Hún hafði ákveðnar væntingar til vetrarins en hver vonbrigðin reka nú önnur. Er nema von að hún spyrji sig: „Til hvers að fara á fætur?“ Vegna einhverfunnar þarf hún að búa við ákveðinn ramma og þessi hringlandaháttur í sambandi við námið í vetur hefur farið mjög illa í hana. Eða eins og hún hefur sjálf sagt við mig: „Skólinn sagði ekki satt og er ekki að virða mig!“ Dóttir mín er alla jafna fámál og ekki mikið fyrir að dæma fólk en er þetta samt ekki sannleikurinn í hnotskurn?“
Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.