„Fyrir mér staðfestir þetta það sem var í raun augljóst, að RÚV og Seðlabanki Íslands skipulögðu það saman hvernig átti að standa að þessari húsleit. Að sjálfsögðu er manni aðeins brugðið þegar þetta kemur upp eftir öll þessi ár.“
Þetta segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í samtali við mbl.is, um meintan upplýsingaleka frá fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands, Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, til fréttamanns RÚV í tengslum við húsleit hjá Samherja árið 2012. Forsætisráðherra hefur vísað málinu til lögreglu.
Rannsókn innri endurskoðanda Seðlabankans hefur leitt í ljós að þáverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabankans átti í tölvupóstsamskiptum við starfsmann RÚV í rúman mánuð áður en ráðist var í húsleit hjá Samherja 27. mars árið 2012.
Þetta kemur fram í bréfi Seðlabanka Íslands frá 18. ágúst 2019 til forsætisráðherra sem mbl.is hefur í höndunum. Rétt er að taka fram að í tölvupóstsamskiptum framkvæmdastjórans við fréttamanninn voru engar trúnaðarupplýsingar en fréttamaður RÚV virðist hafa vitað af fyrirhugaðri húsleit.
„Þessi aðgerð var mjög ruddalega framkvæmd og var í beinni útsendingu. Því til viðbótar var send út tilkynning um allan heim frá Seðlabankanum fljótlega eftir að húsleit hófst þannig að það var ljóst að það var búið að undirbúa það líka,“ segir Þorsteinn og bætir því við að aðgerðin hafi meðal annars verið til þess fallin að valda tjóni.
„Þetta gekk út á það að hluta til að valda tjóni og meiða fólk og þetta hitti mjög marga starfsmenn Samherja illa. Það var verið að ráðast á fyrirtæki og starfsfólk þess. Það er ekki annað hægt en að kalla þetta árás og RÚV var gerandi með Seðlabankanum í þessu máli. Það er í raun það sem er verið að staðfesta,“ bætir hann við.
Stjórn Samherja og Þorsteinn Már hafa þegar kært fimm fyrrum stjórnendur Seðlabankans til lögreglu vegna ætlaðra brota þeirra í starfi. Meðal þeirra eru Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, og Ingibjörg Guðbjartsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabankans.
Spurður hvort að þessar nýju upplýsingar muni hafa áhrif á þá kæru svarar Þorsteinn því neitandi.
„Nei við erum með mál í gangi og komum ekkert meira að þessu máli. Þetta er fyrst og fremst staðfesting á því sem við höfum haldið fram, sagt og hugsað. Aftur á móti verður þetta notað í þeim málaferlum sem eru í gangi núna þar sem við höfum farið fram á það að Seðlabanki Íslands greiði hluta af þeim beina kostnaði sem við [Samherji] urðum fyrir við það að verja okkur. Seðlabankinn mun aldrei bæta einstaklingum það tjón sem þeir hafa orðið fyrir.“