Snýst ekki um góð og vond börn

Sigríður Lára Haraldsdóttir, formaður fagráðs eineltismála.
Sigríður Lára Haraldsdóttir, formaður fagráðs eineltismála. Kristinn Magnússon

Óásættanlegt er hversu mörg börn þurfa að skipta um skóla til að komast út úr neikvæðu hegðunarmynstri eins og einelti. Allur gangur er á því hversu vandaðar og árangursríkar eineltisáætlanir grunnskólanna eru. Umræðan um þessi mál er oft þannig að þeir sem sýna óæskilega hegðun eru gerendavæddir í stað þess að þeir þurfi aðstoð við að leiðrétta hegðun sína. Þetta segir Sigríður Lára Haraldsdóttir, formaður Fagráðs eineltismála, sem starfar á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Hún segir að foreldrar gerenda eineltis láti sjaldan vita af hegðun barna sinna, þrátt fyrir að þeim megi vera ljóst hver hún er. Oft sé einblínt á einstaklingana sem vandinn snertir helst, í stað hópsins. Hún kallar eftir viðhorfsbreytingu á þessu sviði.

Ráðið tekur mál sem ekki leysast annars staðar

Fagráð eineltismála var fyrst skipað árið 2012. Það náði þá eingöngu til grunnskólanna en í  febrúar í fyrra gerði Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra þá breytingu að ráðið myndi einnig vinna með eineltismál í framhaldsskólum. Hlutverk ráðsins er að veita skólasamfélaginu stuðning vegna eineltismála. Annars vegar er hægt að leita almennra upplýsinga og ráðgjafar hjá ráðinu án þess að farið sé í einstök mál og hins vegar er hægt að vísa málum þangað ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn innan skóla eða sveitarfélags. Fagráðið veitir þá ráðgefandi álit.  Til ráðsins geta leitað nemendur, foreldrar/forráðamenn, starfsfólk skólanna og aðrir sem starfa með börnum í starfi sem hefur stoð í grunnskólalögum. 

Þegar mál koma inn á borð ráðsins er leitað þeirra upplýsinga sem þurfa þykir og þeir sérfræðingar sem sitja í ráðinu meta hvernig best væri að bregðast við aðstæðum. Að því loknu er veitt álit sem einnig er sent Menntamálaráðuneytin. Sigríður Lára segir álitið eingöngu til ráðgjafar og að það hafi ekkert lagalegt gildi. 

Oftast koma málin frá foreldrum

Öll þau mál sem ráðið hefur fengið eru tengd einelti í grunnskólum og í flestum tilvikum hefur verið ágreiningur á milli heimilis og skóla um lausn þeirra. Sigríður Lára segir að flestum málunum hafi verið vísað til ráðsins af foreldrum og ástæðan sé oftast sú að þeir telji skólana ekki sinna málinu sem skyldi. „Við myndum vilja fá meira frá skólunum; við viljum vera aðstoð en ekki áfellisdómur og það má ekki vera neikvætt fyrir viðkomandi skóla að málum sé vísað til okkar,“ segir Sigríður Lára.

Algengt er að börn sem verða fyrir einelti skipti um …
Algengt er að börn sem verða fyrir einelti skipti um skóla. mbl.is/Árni Sæberg

Oft fari langur tími í að skilgreina hvort um sé að ræða einelti eða einhverja aðra hegðun. „Stundum upplifa foreldrar að einelti sé í gangi, en skilningur skólans er annar. Þá eru erfið samskipti foreldra og skóla oft ástæða þess að leitað er til okkar.“

Vandinn eltir börnin á samfélagsmiðlunum

Hún segir að börnin, sem um ræðir, séu í nánast öllum tilvikum búin að skipta um skóla þegar málin koma til ráðsins. „Það er dapurlegt að hugsa til þess að samskiptavandi hafi fengið að þróast svona langt þannig að eina úrræðið í sjónmáli sé að skipta um skóla. Svo vitum við líka að vandinn er að elta börnin á samfélagsmiðlunum, þannig að þau eru ekki alltaf að losna undan því með því að fara úr umhverfinu. Það er aldrei ásættanlegt að barn sjái sig tilneytt til að skipta um skóla af þessari ástæðu.“ 

Reglulega heyrist af eineltismálum þar sem afleiðingarnar eru oft afar alvarlegar, en samkvæmt lögum er grunnskólum skylt að setja sér eineltisáætlanir. Sigríður Lára segir að margar séu vel gerðar, en aðrir séu með áætlanir sem hafi jafnvel ekki verið uppfærðar í mörg ár í takt við nýja þekkingu á þessum málum. 

Skólarnir hikandi að láta foreldra taka ábyrgð

Spurð hvort grunnskólakennarar búi yfir nægilegri þekkingu til að vinna með þessi mál segir Sigríður Lára allan gang á því. „Það er lítið fjallað um einelti og viðbrögð við því í kennaranáminu. Það verður að hafa í huga að þessi mál eru oft mjög flókin og verða enn flóknari þegar inn í þau blandast geðrænir erfiðleikar nemenda eða jafnvel erfið fyrri reynsla foreldra, sem heimfæra hana þá yfir á þær aðstæður sem barnið er í.  Svo höfum við orðið vör við að skólar eru stundum hikandi við að færa foreldrum ábyrgð á hegðun barna sinna og eru stundum að kljást við málin sjálfir án samráðs við þá. Það endar yfirleitt ekki vel.“

Sigríður Lára segir að ekki sé nóg að horfa á samskipti svokallaðra þolanda og geranda við lausn vandans. Mikilvægt er að horfa heildstætt á hópinn, sem oftast er bekkurinn, og reyna að komast að því hvernig menningin innan hans styður við þessa tilteknu hegðun. „Hugsanlega veldur óöryggi einhverra í hópnum því að þeir leitast við að búa til hóp sem ekki allir hafa aðgang að og í kjölfarið geta aðstæður á borð við einelti skapast.“

Sjaldgæft að foreldrar gerenda leiti aðstoðar

Sigríður Lára segir mikilvægt að horfast í augu við að börn geri oft hluti sem séu óæskilegir. „Þau lenda í allskonar vanda og við verðum að vera tilbúin til að leiðbeina þeim. Foreldrar verða líka að vera meðvitaðir um að börnin þeirra sýna oft aðra hegðun í skóla en heima og það má ekki loka augunum fyrir því. Öll börn gera allskonar.“ 

Sigríður Lára segir að ekki sé nóg að horfa á …
Sigríður Lára segir að ekki sé nóg að horfa á samskipti svokallaðra þolanda og geranda við lausn vandans. Mikilvægt er að horfa heildstætt á hópinn, sem oftast er bekkurinn, og reyna að komast að því hvernig menningin innan hans styður við þessa tilteknu hegðun. mbl.is/ThinkstockPhotos

Algengt er að börn sem verða fyrir einelti skipti um skóla. Sigríður Lára segist ekki þekkja dæmi þess að börn sem leggi önnur í einelti fari í aðra skóla. „Foreldrar gerendanna leita sér síður aðstoðar en foreldrar þolenda. Við viljum líka vera til staðar fyrir þessi börn, það þarf að skoða hvað er að gerast sem veldur því að þau koma sýna svona hegðun.“

Umfjöllun um gerendur oft óvægin

Sigríður Lára segir að umræðan um gerendur eineltis sé oft afar óvægin. „Það er gjarnan horft á barnið en ekki hegðunina og talað um erfið börn í staðinn fyrir erfiða hegðun. Foreldrar þeirra  upplifa oft skömm og vonleysi og fara gjarnan í vörn. Það þarf að horfa á hegðunina en ekki barnið. Það er alltof algengt að tala um erfið börn eða barnið sem er alltaf að leggja í einelti. En þetta snýst ekki um vond börn og góð börn, heldur óæskilega menningu sem kallar fram óásættanlega hegðun.“ 

Þeir sem hafa hug á að leita til ráðsins geta gert það með því að senda tölvupóst á netfangið fagrad@mms.is. Þá verður fljótlega opnuð upplýsingasíða um eineltismál þar sem foreldrar, börn og fagfólk geta leitað upplýsinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert