Umræðan vakti upp gamalkunn „ónæmisviðbrögð“

Ólína Þorvarðardóttir Kjerúlf og Hjálmar Jónsson.
Ólína Þorvarðardóttir Kjerúlf og Hjálmar Jónsson. Skjáskot/Víglínan

„Það er til skammar að standa í þessu rugli á 21. öldinni,“ sagði Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, um stefnu Íslandsbanka að auglýsa ekki í þeim fjölmiðlum þar sem áberandi kynjahalli væri við lýði. Hjálmar og Ólína Þorvarðardóttir Kjerúlf voru í þættinum Víglínunni á Stöð tvö í kvöld og ræddu þetta mál. 

Þau voru ekki sammála um ákvörðun Íslandsbanka. Hjálmar tók það skýrt fram að auglýsendur ættu ekki að  skipta sér af umfjöllunarefni fjölmiðla. Bankinn væri að gera það með þessum hætti. Í ofan á lag væri bankinn sjálfur ekki kynjajafnaður vinnustaður. Hann taldi ennfremur að Íslandsbanki ætti að biðjast afsökunar á þessu. 

Ólína var hreint ekki sammála Hjálmari og benti ítrekað á að kynjahalli væri enn ríkjandi í íslenskum fjölmiðlum bæði hvað varðar viðmælendur sem og kynjahlutfall á ritstjórnum og vísaði til rannsókna þess efnis. Auk þess benti hún á fjölmargar myndir sem hafa birst í fjölmiðlum undanfarið á samfélagsmiðlum sem sýna hvernig myndbirting kvenna er háttað í fjölmiðlum. Þær eru ekki nefndar á nafn né starfa þeirra getið og kenndar við menn sína. 

Þetta sýnir að „fjölmiðlar eru samdauna þessu rétt eins og samfélagið er,“ sagði Ólína um myndbirtinguna og textana undir umræddum myndum.  

Viðbrögðin sem útspil Íslandsbanka vöktu í samfélaginu vöktu Ólínu til umhugsunar. Hún líkti þeim við gamalkunnum „ónæmisviðbrögðum“ sem gjósa alltaf upp þegar rætt er um karla og konur. 

Hún benti á lögbundnar skyldur fjölmiðla til að sinna kynjajafnrétti og huga að kynjahalla í umfjöllunum sínum hverju sinni burt séð frá því hvort blaðamenn teldu lögin réttmæt eða ekki. Hjálmar var ósamála þessu og benti á að eina skylda blaðamanna væri skyldan gagnvart sannleikanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka