„Ég lít ennþá svo á að ég hafi ekki brotið nein lög í raun og veru,“ segir Sveinn Margeirsson, fyrrverandi forstjóri Matís, um ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi vestra á hendur sér í samtali við mbl.is. Sveinn er ákærður fyrir brot á lögum um slátrun en hann segir að umrædd slátrun hafi verið tilraun sem hafi rúmast innan hlutverk stofnunarinnar.
Í ákærunni er honum gefið að sök að hafa „staðið að sölu og dreifingu á fersku lambakjöti af gripum sem slátrað hafði verið utan löggilts sláturhúss“ sem sé brot á lögum um slátrun og sláturafurðir. Sveinn heyrði fyrst af ákærunni frá „lögmanni úti í bæ“ en þá hafði þingfesting málsins, sem fer fram þriðjudaginn 5. nóvember, verið sett á dagskrá vefsíðu Héraðsdóms Norðurlands vestra.
Forsagan er sú að í september á síðasta ári fór fram bændamarkaður á Hofsósi í Skagafirði. Var þar meðal annars selt kjöt frá bænum Birkihlíð, en lömbum hafði verið slátrað í samstarfi við Matís og var það gert í samræmi við verklag sem Matís hafði lagt til að gilti um örsláturhús.
Hafði Matís skoðað möguleikann á slíkri slátrun í tengslum við verkefni sem miða að því að koma landbúnaðarvörum frá framleiðendum til neytenda með beinum hætti, en slíkt gengur jafnan undir nafninu beint frá býli.
Matís er opinbert hlutafélag og þar með í eigu ríkisins. Hlutverk þess er útlistað á heimasíðu félagsins og er það að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu og bæta lýðheilsu. Sveinn telur tilraunina hafa verið í samræmi við hlutverk Matís.
Í desember á síðasta ári var Sveini sagt upp störfum af stjórn Matís sem vísaði til „trúnaðarbrests“ milli stjórnar og forstjóra. Sveinn kannaðist aftur á móti ekki við neinn trúnaðarbrest. Í ljós kom að stjórnin klofnaði í afstöðu sinni til uppsagnarinnar og við lestur fundargerða stjórnarinnar er ljóst að slátrunin á bænum Birkihlíð var lykilatriði í þeirri ákvörðun að segja Sveini upp.
„Það er auðvitað engin spurning að þessi tilraun og verkefnið í heild sinni fellur undir hlutverk Matís og eins og ég fór yfir í skýrslutöku þá fylgir nýsköpun ávallt einhver áhætta,“ segir Sveinn spurður um afstöðu hans til ákærunnar.
„Þegar við erum komin á þann stað að telja að atvinnurekendur ekki þess umkomna að taka ákvarðanir um sína eigin framleiðslu þá tel ég að við séum komin á stað sem sé ekki hvetjandi til nýsköpunar og þá þaðan af síður til aukinnar verðmætasköpunar í sveitum landsins. Þá með tilheyrandi neikvæðri byggðaþróun og minna vali neytenda á markaði,“ bætir hann við.
Tilraunin snerist um að kanna og vera saman kjöt sem var slátrað við aðstæður hjá bónda annars vegar og í sláturhúsi hins vegar. Þá var jafnframt verið að kanna gæði mismunandi kjötflokka og áhuga neytenda á því að kaupa kjöt beint frá bónda.
„Það var verið að kanna, út frá gæðum, hvort það væri hægt að gera ráð fyrir því að bændur gætu tryggt matvælaöryggi, sem var algjörlega tryggt áður en til nokkurrar sölu kom, og hins vegar að kanna hvort að neytendur hefðu áhuga á meiri upplýsingum um kjöt á markaði og hvort þeir hefðu áhuga á að kaupa kjöt sem væri slátrað með þessum hætti og þá beint af bónda,“ útskýrir Sveinn og bætir við:
„Það var mun ítarlegar fylgst með matvælaöryggi í þessari tilraun heldur en í hefðbundinni slátrun í sláturhúsi. Slátrunin var óvenjuleg að því leyti hvað var mjög mikið lagt upp úr því og það voru til dæmis öll sýni örverumæld áður en ákvörðun um mögulega dreifingu þeirra var tekin.“
Sveinn segir að heimaslátrun sem viðgengst í dag þar sem bændur eru að slátra sjálfir og dreifa beint til neytenda sé væntanlega ekki leyfileg og slíkt umhverfi sé í eðli sínu neikvætt.
„Það má segja að menn séu að pukrast með það sem þeir eru að gera og það dregur úr möguleikum til nýsköpunar. Nýsköpun er ferli þar sem þú vilt geta deilt því sem þú ert að gera og höfða til neytenda á opinn og gagnsæjan hátt.“
Eins og fyrr segir lítur Sveinn þannig á að hann hafi ekki brotið nein lög. Þá finnst honum sérstakt að hann sé kærður fyrir brot á lögum um slátrun og sláturafurðir en upphaflega hafi hann verið kærður fyrir brot á lögum um matvæli og skýrslutaka hjá lögreglu hafi tekið mið af því.
„Í skýrslutöku hjá lögreglu fékk ég að vita að ég hefði verið kærður fyrir brot á matvælalögum en ekki lögum um slátrun þannig það kom mér óneitanlega á óvart þegar ég sá að ég er kærður fyrir brot á lögum um slátrun,“ útskýrir hann og bætir við að lokum:
„Ég geri ráð fyrir því að þetta sé atriði sem að í hefðbundnu réttarfari þyki í öllu falli ekki til fyrirmyndar. Það er að segja að meintum sakborningi séu gefin upp sakarefni varðandi brot á einum lögum en sé hins vegar ákærður fyrir brot á öðrum lögum. Ég er ekki búinn að gera endanlega upp hug minn varðandi það hvernig ég mun standa að minni vörn en ég mun klárlega grípa til varna.“