„Á hverra vitorði á þessi húsleit að hafa verið? Ég bara spyr. Hún var alla vega ekki á vitorði minna umbjóðenda eða annarra fjölmiðla heldur en Ríkisútvarpsins,“ segir Garðar G. Gíslason, lögmaður Samherja, um yfirlýsingu Seðlabanka Íslands um meintan upplýsingaleka til fréttamanns RÚV.
Í skriflegu svari Seðlabankans til mbl.is og yfirlýsingu bankans í kjölfarið kom fram að það væri litið „mjög alvarlegum augum af hálfu Seðlabanka Íslands“ að forsætisráðherra hefði ákveðið að vísa niðurstöðum rannsóknar innri endurskoðunar bankans til embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Rannsóknin leiddi í ljós að fyrrverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabankans átti í tölvupóstsamskiptum við fréttamann RÚV í rúman mánuð áður en húsleit fór fram í höfuðstöðvum Samherja, bæði í Reykjavík og á Akureyri, árið 2012. Fréttamenn RÚV voru mættir fyrir utan húsakynni Samherja þegar leitin hófst.
„Innan bankans hefur allt verið gert til þess að upplýsa það [málið]. Forsætisráðherra og bankaráði Seðlabankans var greint frá niðurstöðum rannsóknar innri endurskoðunar. Seðlabankinn telur jafnframt eðlilegt að forsætisráðuneytið hafi upplýst lögreglu um þessa sömu niðurstöðu,“ segir í yfirlýsingu bankans.
Þar segir þó einnig að ekkert liggi fyrir um að upplýsingum hafi verið lekið frá Seðlabankanum „enda ljóst að téð húsleit var á vitorði margra“.
Garðar gefur lítið fyrir yfirlýsinguna og útskýringar sem koma fram í henni: „Ég á mjög langa sögu í alls konar húsleitum báðum megin við borðið, ég var í 17 ár hjá skattrannsóknarstjóra og stýrði hundruðum leita þar, en þetta er í eina skiptið sem ég hef mætt á leitarstað sem lögmaður þar sem fjölmiðlar eru mættir á undan mér,“ segir hann og bætir við:
„Þetta er eins óeðlilegt og það getur verið og hún dæmir sig eiginlega sjálf þessi yfirlýsing. Að leitin hafi verið á vitorði margra, það er auðvitað ekki þannig.“
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja og Samherji hafa höfðað skaðabótamál á hendur Seðlabankanum vegna rannsóknar bankans á meintum brotum fyrirtækisins á reglum um gjaldeyrismál.
„Þetta er annars vegar Þorsteinn Már að stefna bankanum og hann gerir kröfu um fimm milljónir í skaðabætur sem helgast af lögmannskostnaði við að fá stjórnvaldssekt á hann hnekkt, sem var síðan gert,“ útskýrir Garðar og segir að upphæðin sé ekki nema hluti af raunkostnaði Þorsteins Más. Hann gerir einnig kröfu um 1,5 milljónir króna í miskabætur.
„Hins vegar er krafa félagins [Samherja] fyrir hönd samstæðunnar töluvert hærri. Hún byggir fyrst og síðast á lögmannskostnaði og öðrum sérfræðikostnaði,“ útskýrir Garðar. Umrædd krafa nemur 306 milljónum króna og þá krefst félagið 10 milljóna króna í miskabætur.
Garðar segir að við mat á upphæð kröfunnar verði að hafa í huga hversu umfangsmikil húsleit Seðlabankans og rannsóknin í kjölfarið hafi verið. Þá verði að hafa í huga í hversu langan tíma málareksturinn stóð yfir.
„Húsleitarkrafan beindist að 30 fyrirtækjum og það voru haldlögð gögn frá 40 fyrirtækjum um allan heim og öll þurftu þau að verja sig. Fyrsta kæran sem kom frá Seðlabankanum sneri ekki einungis að Samherja heldur ellefu fyrirtækjum. Það voru haldlagðar milljónir rafrænna skjala og stór flutningabíll af bókhaldsgögnum,“ útskýrir hann og bætir við:
„Það er verið að reyna leggja mat á kostnaðinn við þetta. Það er ekki verið að fara fram á tapaðan ávinning eða neitt slíkt heldur er þetta bara beinn útlagður kostnaður.“