Fyrrverandi forstjóri Matís ákærður fyrir heimaslátrun

Sveinn Margeirsson fyrrverandi forstjóri Matís er ákærður fyrir brot á …
Sveinn Margeirsson fyrrverandi forstjóri Matís er ákærður fyrir brot á lögum um slátrun og sláturafurðir. Mynd/mbl.is

Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra hefur ákært Svein Margeirsson, fyrrverandi forstjóra Matís, fyrir brot gegn lögum um slátrun og sláturafurðir með því að hafa staðið að sölu og dreifingu á fersku lambakjöti af gripum sem hafði verið slátrað utan löggilts sláturhúss.

Þetta kemur fram í ákærunni sem mbl.is hefur undir höndum. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Norðurlands vestra þriðjudaginn 5. nóvember. Þess er krafist að Sveinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Brot gegn lögum um slátrun og sláturafurðir geta varðað sektum eða fangelsi, allt að tveimur árum.

MAST tilkynnti heimaslátrun til lögreglu

Í september á síðasta ári fór fram bændamarkaður á Hofsósi í Skagafirði. Var þar meðal ann­ars selt kjöt frá bæn­um Birki­hlíð, en lömb­um hafði verið slátrað í sam­starfi við Matís og var það gert í sam­ræmi við verklag sem Matís hafði lagt til að gilti um ör­slát­ur­hús.

Hafði Matís skoðað mögu­leik­ann á slíkri slátrun í tengsl­um við verk­efni sem miða að því að koma land­búnaðar­vör­um frá fram­leiðend­um til neyt­enda með bein­um hætti, en slíkt geng­ur jafn­an und­ir nafn­inu beint frá býli.

Sveinn stóð meðal ann­ars að söl­unni á markaðinum og sagðist hann í sam­tali við Bænda­blaðið ekki hafa sér­staka skoðun á því hvort Matís hefði vís­vit­andi brotið lög með at­hæf­inu, en sam­kvæmt lög­um verður slátrun að fara fram á viður­kenndu slát­ur­húsi. Varð þetta til þess að Matvælastofnun (MAST) tilkynnti í október um innköllun á kjötinu og í nóvember óskaði MAST eftir því að lögreglan myndi rannsaka málið.

Sagt upp nokkrum vikum síðar

Sveini var sagt upp af stjórn Matís í desember á síðasta ári. Ástæðan var sögð vera trúnaðarbrestur milli stjórnar og hans en þá hafði Sveinn starfað hjá Matís í átta ár. Í samtali við mbl.is kannaðist Sveinn ekki við þann trúnaðarbrest sem stjórn Matís vísaði til.

Í febrúar á þessu ári fékk mbl.is aðgang að fundargerðum stjórnar Matís og í þei mátti meðal annars sjá að uppsögn Sveins var umdeild meðal stjórnarinnar og vildu tveir þeirra, af samtals sjö stjórnarmönnum, freista þess að byggja upp traust á nýjan leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert