Nýr vegakafli á Suðurlandsvegi í Ölfusi var opnaður fyrir umferð nú á laugardaginn. Þetta er 2,5 kílómetra spotti, þriggja akreina 2-1 vegur, milli Hveragerðis og Gljúfurholtsár en þó þannig að hægt verði að hafa hann tvöfaldan í báðar áttir í framtíðinni, án þess að grafa allt upp aftur.
Einnig hefur framkvæmdinni fylgt gerð hjáreina og tengibrauta svo vegagerðin er alls 7 kílómetrar. Þá var brúin yfir Varmá breikkuð og byggð göng undir þjóðveginn fyrir gangandi fólk og hesta.
„Framkvæmdir hafa gengið vel og núna er aðeins fínpússið eftir. Því ætti að ljúka núna í vikunni,“ segir Ágúst Óli Jakobsson sem stýrt hefur verkefninu fyrir hönd verktakans, ÍAV. Enn sem stendur er hámarkshraði á veginum nýja 50 km/klst og við Gljúfurholtsána 30 km/klst. en þar er frágangsvinnu ólokið.
Áformað er að halda vegaframkvæmdum í Ölfusinu áfram og leggja 2-1 veg alla leið til Selfoss. Útboð á því verkefni er í undirbúningi.