Vant­ar 18 börn af 54 í leikskólann

Nóróveiki kom upp í heilsuleikskólanum Ársól og þurfti að loka …
Nóróveiki kom upp í heilsuleikskólanum Ársól og þurfti að loka honum í nokkra daga í kjölfarið. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Loka þurfti ungbarnaleikskólanum Ársól í Grafarvogi í síðustu viku eftir að nóróveira kom þar upp. „Mörg börn veiktust sem og einhverjir starfsmenn, segir Berglind Grétarsdóttir leikskólastjóri í samtali við mbl.is. Starfsemi hófst aftur á leikskólanum í dag.

„Föstudaginn 18. október var innan við helmingur, af þeim 54 börnum sem áttu að vera hér, mættur. Það voru mjög mörg börn veik í þeirri viku og líka einhverjir starfsmenn. Svo fáum við staðfest á mánudeginum 22. október að það væri staðfest smit hjá einu barni,“ útskýrir Berglind.

Hún segir mjög mörg börn hafa verið með niðurgang og önnur einkenni nóróveirunnar en að læknar hafi ekki sent sýni úr þeim öllum í ræktun og því ekki hægt að segja til um nákvæman fjölda barna sem smitaðist. Þau eru að minnsta kosti þrjú.

Tvö börn á spítala til aðhlynningar

Þá var farið með tvö börn, að minnsta kosti, á Barnaspítala Landspítalans til aðhlynningar, annað þeirra þurfti að fá vökva og hitt var með blóð í hægðum.

Á miðvikudag í síðustu viku var leikskólanum svo lokað og hann sótthreinsaður á meðan börn og starfsmenn voru heima hjá sér í sóttkví.

Nóróveiran er mjög smitandi og berst auðveldlega manna á milli. Foreldrar barna voru beðnir um að vera ekki að hittast með börnin sín og starfsfólki leikskólans var meinað að umgangast hvort annað til að koma í veg fyrir að fleiri sýktust af veirunni.

„Það vantar 18 börn af 54 í hús núna og einhver þeirra eru með kvef en önnur ennþá að jafna sig. Við viljum að þau séu búin að vera með eðlilegar hægðir í að minnsta kosti tvo daga áður en þau koma aftur á leikskólann,“ bætir Berglind við.

Ársól er sjálfstætt starfandi heilsuleikskóli, með þjónustusamning við Reykjavíkurborg, fyrir börn á aldrinum 9 mánaða til þriggja ára. Leikskólinn vinnur eftir hugmyndafræði heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur og er jafnframt þáttakandi í verkefninu Heilsueflandi leikskóli á vegum embættis landlæknis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert