Andlát: Birgir Ísleifur Gunnarsson

Birgir Ísleifur Gunnarsson.
Birgir Ísleifur Gunnarsson. mbl.is/Golli

Birgir Ísleifur Gunnarsson, fyrrverandi borgarstjóri og seðlabankastjóri, lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi í gær. Birgir fæddist í Reykjavík 19. júlí 1936. Foreldrar hans voru Gunnar Espólín Benediktsson, hrl. og forstjóri, og Jórunn Ísleifsdóttir ritari.

Birgir varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1955 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1962. Birgir starfaði fyrst um sinn sem lögmaður í Reykjavík og varð héraðsdómslögmaður 1962 og hæstaréttarlögmaður 1967.

Birgir tók alla tíð virkan þátt í stjórnmálum. Hann var formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, frá 1956 til 1957 og formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 1957 til 1958 og sat jafnframt í háskólaráði f.h. stúdenta. Hann var formaður Heimdallar frá 1959- 1962 og formaður SUS frá 1967 til 1969. Hann sat í borgarstjórn Reykjavíkur frá 1962 til 1982 og var borgarstjóri frá 1972 til 1978. Hann var alþingismaður fyrir Reykjavíkurkjördæmi frá 1979 til 1991 og gegndi embætti menntamálaráðherra frá 1987 til 1988 í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar. Birgir var skipaður seðlabankastjóri 1991 og formaður bankastjórnar 1994 og gegndi því starfi þar til hann fór á eftirlaun 2005.

Birgir starfaði í fjölda nefnda og ráða og var m.a. formaður sendinefndar Alþingis hjá þingmannasamtökum Atlantshafsbandalagsins 1983 til 1987 og var í sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna frá 1980 til 1988. Birgir var mikill áhugamaður um skógrækt og átti sæti um árabil í stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur. Hann sat einnig í sóknarnefnd Hallgrímskirkju. Birgir var virkur félagi í Rótarý á Íslandi og var forseti samtakanna um nokkurt skeið. Birgir ritaði fjölda greina í blöð og tímarit, einkum um stjórnmál. Birgir var heiðraður með ýmsum hætti fyrir margvísleg störf og hlaut hann m.a. stórriddarakross íslensku fálkaorðunnar.

Birgir giftist Sonju Backman skrifstofustjóra árið 1956 og eignuðust þau fjögur börn. Sonja lést 5. október sl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert