Ekki skylda að tilkynna nóróveiru

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ástæðu til að nýta hvert tækifæri …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ástæðu til að nýta hvert tækifæri til að hvetja til almenns hreinlætis, sérstaklega í tengslum við matargerð og framreiðslu á matvælum.

Embætti landlæknis hefur ekki fjöldatölur yfir þá sem greinst hafa með nóróveiru þar sem sjúkdómurinn er ekki tilkynningarskyldur. Ákveðið verklag fer hins vegar af stað þegar hópsýkingar koma upp líkt og á ungbarnaleikskólanum Ársól í Grafarvogi í síðustu viku. Staðfesting á nórósmiti hjá barni á leikskólanum mánudaginn 22. október var ekki tilkynnt til heilbrigðiseftirlits eða sóttvarnalæknis.

Verklagið felst í samstarfi sóttvarnalæknis, heilbrigðiseftirlits og Matvælastofnunar. „Það fer eftir eðli sýkingarinnar hverjir koma þarna að. Í þessu tilfelli, þegar ljóst er hvaða sýking þetta er, þá er það heilbrigðiseftirlitið sem fer inn og kannar aðstæður,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, í samtali við mbl.is. 

Hlutverk sóttvarnalæknis í þessu tilviki er að ná utan um sýkinguna og veita ráðleggingar varðandi til hvaða ráða er hægt að grípa. „En það er heilbrigðiseftirlitið sem kannar aðstæður, það er hvernig hreinlætisaðstæður eru, hvernig mat er fyrirkomið og hvernig matreiðslunni er háttað til þess að reyna að sjá hvort hægt sé að finna orsök fyrir því að svona hópsýking brýst út,“ segir Þórólfur. 

Heilbrigðiseftirlitið hefur lokið úttekt á leikskólanum

Leikskólanum var lokað á miðvikudaginn og hann sótt­hreinsaður á meðan börn og starfs­menn voru heima hjá sér í sótt­kví. Heilbrigðiseftirlitið gerði úttekt á leikskólanum í gær. 

Tvö börn að minnsta kosti hafa verið flutt á Barna­spítala Land­spít­al­ans til aðhlynn­ing­ar, annað þeirra þurfti að fá vökva og hitt var með blóð í hægðum.

Þórólfur telur að starfsfólk leikskólans hafi brugðist rétt við með því að loka skólanum. Því bar ekki skylda til að tilkynna um smitið þó svo embætti landlæknis kjósi að vera upplýst um hópsýkingar. 

„Við erum ekki að fylgjast með einstaklingum sem greinast. En við viljum vita þegar hópsýkingar koma upp til að kanna hvort hægt sé að gera eitthvað til að stöðva útbreiðsluna. Það var gert í þessu tilviki og vonandi mun það duga,“ segir Þórólfur. 

Hann segir ástæðu til að nýta hvert tækifæri til að hvetja til almenns hreinlætis. „Sérstaklega í tengslum við matargerð og framreiðslu á matvælum. Þetta gildir um matartengdar sýkingar og við erum alltaf að hamra á þessu allt árið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert