Gyða Valtýsdóttir er varla búin að átta sig á því að hún hafi hlotið tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs þegar blaðamaður mbl.is hittir hana á sviði tónlistarhússins í Stokkhólmi í kvöld. Gyða er sjötti Íslendingurinn sem hlýtur þennan heiður frá því þau voru fyrst veitt árið 1965.
Auk Gyðu hlaut Atli Heimir Sveinsson verðlaunin árið 1976, Hafliði Hallgrímsson 1986, Björk Guðmundsdóttir 1997, Haukur Tómasson 2004 og Anna S. Þorvaldsdóttir 2012.
„Það var mikill heiður að fá tilnefninguna fyrir nokkrum mánuðum síðan,“ segir Gyða og segist hafa farið í ákveðið ferli í kjölfar tilnefningarinnar. Að hún væri orðin fullorðin ekki bara rétt að byrja í tónlist. Hún gaf út plötuna Epicycle, sem inniheldur verk tónskálda á borð við Schubert, Schumann og Messiaen, en einnig tilraunakenndari höfunda eins og Harry Partch og George Crumb, árið 2017 en í fyrra sendi hún frá sér plötuna Evolution. Það eru hinsvegar tveir áratugir síðan hún stofnaði hljómsveitina múm ásamt tvíburasystur sinni Kristínu Önnu, Gunnari Erni Tynes og Örvari Smárasyni en þeirra fyrsta plata Yesterday was Dramatic – Today is OK, kom út á Þorláksmessu árið 1999.
„Maður þarf sennilega að sætta sig við að maður er ekki byrjandi lengur,“ segir Gyða og hlær á sviði tónlistarhússins í Stokkhólmi þar sem ráðherrar Norðurlandanna og fleiri óska henni til hamingju með verðlaunin.
Hvað tekur við núna?
Ég held áfram mínu striki en ég var að klára plötu sem kemur út snemma á næsta ári. Ég er að gefa hana sjálf út þannig að verðlaunin koma sér vel. Síðan er ég með margar hugmyndir sem mig langar að framkvæma þannig að þetta kemur sér vel að geta framkvæmt þær,“ segir Gyða en verðlaunin eru 350 þúsund danskar krónur, sem svarar til 6,5 milljónum íslenskra króna. Nýja platan er sjálfstætt framhald af Epycycle en þar spilaði Gyða verk látinna tónskálda en á þessari plötu vinnur hún með íslensku og sprelllifandi tónlistarfólki.
Gyða þakkaði tvíburasystur sinni meðal annars þegar hún tók við verðlaununum en þær eru hafa verið afar samrýndar alla tíð, eða eins og Gyða segir sjálf - allt frá því í móðurkviði.
Þær eru ekki að vinna mikið saman í tónlistinni um þessar mundir en styðja alltaf hvor aðra og eru að fara að taka upp verkefni saman á næstunni. Þetta er verk sem við vinnum með Ragnari Kjartanssyni og öðru tvíburapari, Aaron og Bryce Dessner en þeir eru í bandarísku hljómsveitinni The National, sem Ragnar hefur unnið talsvert með.
Sýning sem Ragnar setti upp fyrir fjórum árum byggði á þessu verkefni og Ragnar gerði síðan videóverk úr einu laginu sem var samið fyrir þessa sýningu og það var frumsýnt á Metropolitan-safninu í New York í maí. „En við sömdum heila plötu þannig að við erum að fara að taka hana upp núna,“ segir Gyða og slær þessu upp í grín og segir að þetta sé hið íslenska ABBA. Blaðamaður grípur þetta á lofti og segir að þar sé fyrirsögnin komin á viðtalið en lofar Gyðu því að það verði ekki fyrirsögn á þessu spjalli héðan frá Stokkhólmi.
„Gyða Valtýsdóttir hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2019 fyrir tónlistarflutning þar sem sköpunarkrafturinn brýst fram með afgerandi rödd, frumlegum hljóðfæraleik og miklum persónutöfrum.
Tónlistarverðlaunin voru afhent af verðlaunahafa ársins 2017, hljómsveitarstjóranum Susönnu Mälkki, við verðlaunaathöfn í beinni útsendingu frá tónleikahúsinu í Stokkhólmi á þriðjudagskvöld.
Annað hvert ár eru tónlistarverðlaunin veitt núlifandi tónskáldi og hitt árið, eins og í ár, eru þau veitt tónlistarhópi eða -flytjanda,“ segir á vef Norðurlandaráðs.
„Gyða Valtýsdóttir er menntuð í sígildri tónlist en hefur ekki einskorðað sig við neina tiltekna tónlistarstefnu. Ung að árum var hún einn stofnmeðlima hinnar rómuðu tilraunakenndu rafsveitar múm. Síðan þá hefur hún verið áberandi sem fjölhæfur flytjandi í flokki þess íslenska tónlistarfólks sem hefur getið sér gott orð á erlendri grund.
Gyða er menntuð í sellóleik en síðastliðin ár hefur hún bæði flutt frumsamda tónlist og átt í samstarfi við tónlistarfólk úr ýmsum áttum. Menntunin hefur nýst henni sem grunnur til að fara eigin leiðir og veita áheyrendum hlutdeild í heildrænni, samfelldri tónlistarnálgun með aðdáunarverðum sköpunarkrafti. Gyða hrífur áheyrendur sína með einstökum flutningi sem einkennist af áhrifaríkri tilfinningu fyrir mótun hendinga og fraseringu. Hún hefur mikla sérstöðu sem flytjandi og nærvera hennar á sviði er bæði heillandi og einstök – viðkvæm og óræð en jafnframt kraftmikil. Flutningur hennar er ákaflega persónulegur, samfelldur og framúrskarandi, hvort sem hún leikur á selló, syngur á sinn sérstæða hátt eða leikur á önnur hljóðfæri, og ávallt liggur frumleikinn til grundvallar.
Gyða flytur tónlist þvert á tónlistargeira og brúar bilin sem aðskilja þá með óvenjulegum hætti, ekki síst með því að líta hjá því að skörp skil séu á milli mismunandi greina tónlistar. Og hvort sem um er að ræða hennar eigin tónlist eða annarra einkennist flutningurinn af persónulegum frumleika og hugvitssemi,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.