„Ég er mjög spennt,“ sagði Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú, í Síðdegisútvarpi Rásar 2. Þar ræddi hún um klónaða hundinn hann Samson sem er nýkominn í heiminn. Eiginmaður Dorritar, Ólafur Ragnar Grímsson, greindi frá komu klónsins á Twitter í gærkvöldi.
Samson fæddist fyrir helgi og sagði Dorrit að ferlið hefði gengið mjög vel í þetta skiptið. „Við höfðum tvisvar reynt áður en það gekk ekki vel. Núna gekk það vel en hann er hress og borðar mikið. Hann er eins og Sámur var.“
Hún sagðist sjá þegar Samson opnar munninn að hann er alveg eins og Sámur var.
Samson fæddist vestanhafs og verður þar fram í mars þegar hann flytur til London, þar sem Dorrit er búsett. Hún segir að þá geti hann ferðast hvert sem er um Evrópu en hundar þurfa að dvelja í einangrun í fjórar vikur þegar þeir koma hingað til lands.
„Allir geta komið og heimsótt hann,“ sagði Dorrit sem vonast til þess að reglum um einangrun dýra við komuna til Íslands verði breytt.
Hún hefur kynnst öðru fólki sem hefur klónað dýrin sín og nefndi konu sem klónaði hund og fékk sex klón-hvolpa.
Spurð hvort hún mæli með því að klóna dýr segist Dorrit frekar geta svarað því að ári liðnu. „Fólk hefur sagt mér að þetta sé það besta sem það hefur gert, því líkindin eru svo mikil,“ sagði Dorrit og bætti við að það sé kraftaverk hvernig vísindin hafi þróast síðan Dollý var klónuð árið 1996.
Sámur var blendingur þýskra og íslenskra fjárhunda en hann fékk krabbamein og dó. Dorrit sagðist vilja taka það gen úr honum og í framtíðinni væri hægt að taka krabbameinsgen úr fólki.
Fyrrverandi forsetafrúin sagðist skilja það vel að einhverjum þætti ekki í lagi að klóna dýr:
„Ég veit að einhverjum finnst þetta ósiðferðislegt og ég skil það. Einhverjum þykja hjónabönd samkynhneigðra ósiðferðileg. Fólk hefur mismunandi skoðanir.“