Skrifað var undir samning í gær um nám í íþróttafræði á háskólastigi við Háskólann í Reykjavík, sem kennt verður í Vestmannaeyjum. Náminu er ætlað að nýtast sem grunnur að áframhaldandi námi í íþróttafræði.
Samningurinn nær til næstu tveggja skólaára og verkefninu er ætlað að efla háskólanám á landsbyggðinni, að því er segir á vef Vestmannaeyjabæjar.
Fyrsta skólaárið verða sex námskeið haldin í fjarkennslu í gegnum fjarfundabúnað í Þekkingarsetri Vestmannaeyja. Auk þess munu kennarar koma til Eyja tvisvar á önn til að vinna með nemendum. Tvö verkleg námskeið verða haldin í Vestmannaeyjum. Nemendur munu sækja tvö þriggja vikna námskeið í Reykjavík en taka öll skrifleg próf í Þekkingarsetri Vestmannaeyja, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.