Kannast ekki við að hafa verið sagt upp

Kirkjuhúsið í Reykjavík.
Kirkjuhúsið í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég kannast ekki við að mér hafi verið sagt upp starfi framkvæmdastjóra kirkjuráðs enda hefði slík uppsögn verið ólögmæt,“ segir Oddur Einarsson í athugasemd sem hann hefur sent mbl.is vegna fréttar Morgunblaðsins í gær um að kirkjuráð þjóðkirkjunnar hafi á fundi sínum 2. október samþykkt einróma að segja upp ráðningarsamningi hans.

Vitnað var í frétt Morgunblaðsins til fundargerðar kirkjuráðsins. Þar sagði enn fremur að samþykkt hefði verið að Oddur léti þegar af störfum, hann ynni þannig ekki uppsagnarfrest og að unnið væri að því að semja um starfslok hans. Þá kom einnig fram að biskup hefði framsent til ráðsins bréf fjármálastjóra biskupsstofu þar sem meðal annars hefði verið kvartað yfir framkomu Odds í garð verkefnastjóra fjármála biskupsstofu.

„Ég kannast við að mér hafi verið boðið að ganga til viðræðna um starfslokasamning sem ég hafi þegið. Ég fór þess á leit við stéttarfélag mitt, Fræðagarð sem er aðildarfélag BHM, að það annaðist samningsgerðina fyrir mína hönd og í mínu umboði. Starfslokasamningur tókst fyrir milligöngu félagsins, ég er hættur sem framkvæmdastjóri kirkjuráðs, hverf frá starfinu fullkomlega sáttur við þá ákvörðun og þakklátur fyrir að geta stigið niður af sviðinu á þessum tímapunkti,“ segir enn fremur í athugasemdinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert